Fara á efnissvæði
18. september 2020

Frímann hjá ÍBR: Styrkir til íþróttafélaga er hvatning fyrir aðra

„Styrkir Reykjavíkurborgar til íþrótta- og æskulýðsfélaga er mikil hvatning fyrir önnur sveitarfélög. Við könnuðum stöðuna hjá félögunum í apríl. En ýmislegt hefur breyst síðan þá, þannig að við þurfum að taka púlsinn aftur,“ segir Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR).

 

 

Borgarráð samþykkti í síðustu viku tillögu borgarstjóra um að veita íþrótta- og æskulýðsfélögum í Reykjavík sérstakan stuðning upp á 135 milljónir króna vegna tekjutaps sem skapast hefur vegna kórónuveirufaraldursins.

Af heildarfjárhæðinni verður 55 milljónum króna varið til viðhaldsverkefna en 80 milljóna króna í styrki vegna tekjutaps.

 

Borgin kemur til móts við íþróttafélögin

Fram kemur í umfjöllun um stuðninginn á vef Reykjavíkurborgar, að COVID-19 faraldurinn hafi haft fjölþætt og neikvæð áhrif á rekstur og starfsemi íþrótta- og æskulýðsfélaga í borginni. 

 

 

ÍBR og ÍTR voru í samskiptum við íþrótta- og æskulýðsfélög í borginni til að kanna og greina áhrif Covid-19 faraldursins á starfsemi félaganna. Horft var sérstaklega til tekjutaps félaganna vegna útleigu á eigin mannvirkjum, aukins kostnaðar vegna reksturs barna- og unglingastarfs og viðhaldsóska félaga vegna eigin mannvirkja.

Niðurstaðan var sú að samkomubann vegna Covid-19 hefur haft og mun hafa fjölbreytt og neikvæð áhrif á rekstur og starfsemi félaganna.

 

 

Borgarráð samþykkti í lok mars tillögur um aðgerðir og viðspyrnu í menningar-, íþrótta- og listalífi í borginni í samvinnu við félög þessara greina.

Haft er eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að stuðningurinn sé hugsaður til að koma til móts við íþróttafélögin í borginni vegna aðstæðnanna sem skapast hafa vegna kórónuveirufaraldursins. Hann komi til viðbótar við framlög ríkisins sem farið hafa í gegnum ÍSÍ.

 

ÍBR er einn af 28 sambandsaðilum UMFÍ. Sambandsaðilarnir skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 460 félög innan UMFÍ með rúmlega 300 þúsund félagsmenn.