Frjálsíþróttaskóli UMFÍ á Selfossi í ellefta sinn
Frjálsíþróttaskóli UMFÍ verður dagana 23.-27. júní 2019. Skólinn er samstarf Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) á Suðurlandi, sem er sambandsaðili UMFÍ, og Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ). Kennsla fer fram á HSK-svæðinu á Selfossi.
Þetta er ellefta skiptið sem Frjálsíþróttaskólinn fer fram.
Skólinn er ætlaður fyrir börn á aldrinum 11 til 18 ára. Þau kom saman um miðjan dag á sunnudegi og skólanum lýkur um hádegi á fimmtudag í sömu viku.
Áhersla er kennsla í frjálsum íþróttum. Auk þess verður farið í sund, ýmsa konar leiki eins og ljósmyndaratleik og hópefli, haldnar verða kvöldvökur og endar skólinn svo með móti og pylsuveislu. Þáttökugjald í skólann er 25.000 kr. (20.000 kr fyrir systkini) en innifalið í því er kennsla, fæði, gisting ofl.
Besta kennslan
Aðalumsjónarmenn með skólanum 2019 líkt og undafarin ár eru þær Ágústa Tryggvadóttir og Fjóla Signý Hannesdóttir en einnig munu fleiri þjálfarar og aðstoðarmenn vinna við skólann. Lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna á hverjum stað til að tryggja sem besta kennslu fyrir ungmennin.
Í lok námskeiðsins fá öll ungmennin viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttökuna. Skólinn hefur fengið eindæma góð viðbrögð og ungmennin hafa farið sátt heim eftir lærdómsríka, krefjandi en umfram allt skemmtilega viku.
Undafarin ár hefur skólinn verið full bókaður en hámarkið er við 60 iðkendur. Skólinn hefur verið fjölmennasti skólinn síðustu ár. Því er mikilvægt að tryggja sér snemma pláss í skólanum.
Á myndinni hér að ofan má sjá þátttakendur í skólanum.
Nánari upplýsingar og skráning á vef Frjálsíþróttasambands Íslands.