Fara á efnissvæði
03. desember 2018

Funduðu um Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað

Nefnd um framkvæmd Landmóts UMFÍ 50+ fundaði á miðvikudag í síðustu viku um mótið í félagshúsi Þróttar í Mýrinni í Neskaupstað. Þetta var fyrsti fundur nefndarinnar.

Fram kemur á vef Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) að rætt hafi verið að mestu um væntanlegar keppnisgreinar og aðstæður í bænum fyrir mótið. Takmörkuð frjálsíþróttaaðstaða er í Neskaupstað. Þannig hefur staðan reyndar verið á fleiri stöðum þar sem mótið hefur verið haldið.

Það hefur ekki komið að sök fram til þessa og ætíð fundin lausn á því.

Skrifað var undir samstarfssamning um mótið um miðjan nóvember. Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og formaður landsmótsnefndarinnar, sagði þá íbúa sveitarfélagsins spennta fyrir mótinu. Rætt hafi verið um að bjóða upp á ýmsar óvenjulegar greinar.

Gert er ráð fyrir að keppnisgreinar liggi fyrir þegar nefndin fundar næst eftir áramótin.

Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Neskaupstað 28. – 30. júní á næsta ári.

Landsmótsnefndin
Formaður: Karl Óttar Pétursson, Fjarðabyggð
Ritari: Gunnar Gunnarsson, UÍA
Gjaldkeri: Eysteinn Þór Kristinsson, Þrótti
Keppnisstjórar: Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, Þorsteinn Ágústsson, Þrótti
Öryggis- og tjaldsvæðisstjóri: Geir Sigurpáll Hlöðversson, Þrótti
Svæðisstjóri: Karl Rúnar Róbertsson, Þrótti
Afþreyingarstjóri: Svanlaug Aðalsteinsdóttir, Þrótti
Veitinga- og þjónustustjóri: Sigurveig Róbertsdóttir, Þrótti
Starfsmannastjóri: Þorvarður Sigurbjörnsson, Þrótti
Fulltrúi UMFÍ: Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ
Með nefndinni starfa Ómar Bragi Stefánsson frá UMFÍ, Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri UÍA og Bjarki Ármann Oddsson, æsku- og tómstundafulltrúi Fjarðabyggðar.