Fara á efnissvæði
12. apríl 2023

Funduðu um uppfærslu íþróttalaga

Þessa dagana er verið að leggja grunninn að tímabærri uppfærslu á íþróttalögum. Þau lög sem nú eru í gildi eru byggð á grunni fyrstu íþróttalaganna frá árinu 1940 og breytingu á þeim frá árinu 1965. Íþróttalögin síðustu voru sett árið 1998 og hefur þeim verið breytt í tvígang, fyrst með breytingu um lyfjaeftirlit og með nýrri grein um ráðningarbann einstaklinga sem hafa hlotið refsidóma.

Liður í aðdraganda breytingaferlisins er að funda með helstu hagsmunaaðilum og ræða um það hvaða breytingar þarf að gera á lögunum svo þau svari kalli samtímans.

Þau Óskar Þór Ármannsson, sérfræðingur á skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Hildur Ýr Þórðardóttir, lögfræðingur ráðuneytisins, og Örvar Ólafsson funduðu um málið í þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík í dag.

Fundinn sátu fyrir hönd UMFÍ þau Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, Guðmundur G. Sigurbergsson, gjaldkerfi stjórnar UMFÍ, Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, Einar Þorvaldur Eyjólfsson, rekstrarstjóri UMFÍ, og Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ.

Góðar og afar gagnlegar umræður áttu sér stað um íþróttalög, markmið þeirra og tilgang uppfærslu þeirra auk margra annarra þátta.

Stefnt er að uppfærslu íþróttalaganna á næstu misserum.