Fara á efnissvæði
23. maí 2019

Fundur um þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi

„Samkvæmt gögnum frá Rannsóknum og greiningu taka börn og ungmenni af erlendum uppruna minni þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi heldur en íslensk börn og ungmenni. Þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi getur haft margvísleg jákvæð áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu þeirra sem taka þátt. Auk þess ýtir þátttaka í íþróttum undir þá tilfinningu að tilheyra og taka þátt, þannig geta íþróttir gegnt mikilvægu hlutverki að virkja innflytjendur til þátttöku í samfélaginu. Íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin leggur ríka áherslu á verkefnið Vertu með! Í fyrrahaust hlutu fimm félög styrki til þess að fara af stað með átaksverkefni hjá sér til þess að ná betur til fjölskyldna af erlendu bergi. Í dag fáum við m.a. að heyra tvær reynslusögur um hvernig til tókst og jafnvel hvað hefði betur mátt fara. Einnig verður áhugavert að heyra hvaða verkfæri félög telja sig þurfa frá ÍSÍ og UMFÍ til þess að ná betur til þessara fjölskyldna,“ segir Ragnheiður Sigurðardóttir, landsfulltrúi UMFÍ.    

Ragnheiður er helsti tengiliður Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) við verkefnið Vertu með. Það er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ. Markmið þess er að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi. Verkefninu var ýtt úr vör í fyrrahaust með útgáfu upplýsingabæklinga um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins, æfingagjöld, frístundastyrki og fleira.

Í framhaldinu veittu ÍSÍ og UMFÍ styrki til fimm félaga til þess að fara í átaksverkefni til þess að fjölga börnum og ungmennum af erlendum uppruna inn skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

ÍSÍ og UMFÍ standa fyrir opnum fundi í dag, fimmtudaginn 23. maí, þar sem verkefninu verður haldið áfram. Viðburðurinn fer fram í íþróttamiðstöðinni í Laugardal í sal E. kl. 15:30 – 16:45. Starfsfólk innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar er sérstaklega hvatt til þátttöku. Léttar veitingar í boði.

 

Dagskráin er eftirfarandi:

 

 

Meira um verkefnið Vertu með!