Fara á efnissvæði
30. apríl 2021

Fyrsta héraðsþing HSK með fjarfundarbúnaði

„Þetta var hefðbundið þing og vel sótt. En við lögðum áherslu á að minna á Unglingalandsmótið um verslunarmannahelgina,‟ segir Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK). 99. héraðsþing var haldið í gær, fimmtudag. Það var haldið með fjarfundarbúnaði og gert út frá Selinu við völl Umf. Selfoss.

Þingið var sögulegt, því þetta var í fyrsta sinn sem HSK heldur héraðsþing með þessum hætti.

Þingfulltrúar voru 79 ásamt gestum, sem þykir ansi gott, að sögn Engilberts.

 

Sama stjórn

Litlar breytingar urðu á stjórn og nefndum sambandsins. Stjórn HSK skipa þau Guðríður Aadnegard formaður, Helgi S. Haraldsson varaformaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri, Anný Ingimarsdóttir ritari og Jón Þröstur Jóhannesson meðstjórnandi. Varastjórn skipa þau Gestur Einarsson, Olga Bjarnadóttir og Baldur Gauti Tryggvason.

Valnefnd sambandsins valdi kylfinginn Heiðrúnu Önnu Hlynsdóttur, Golfklúbbi Selfoss og júdómanninn Breka Bernhardsson, Umf. Selfoss, íþróttafólk ársins 2020 hjá Héraðssambandinu Skarphéðni og mættu þau bæði í Selið til að taka við verðlaunum og styrk úr Verkefnasjóði HSK.

Að auki voru veittar árlegar viðurkenningar frá sambandinu. Æskulýðsnefnd Hestamannafélagsins Sleipnis hlaut unglingabikar HSK, Golfklúbbur Selfoss hlaut foreldrastarfsbikar HSK og Ungmennafélag Selfoss sigraði í heildarstigakeppni sambandsins 2020. Þá var Sigmundur Stefánsson, Umf. Þjótanda, útnefndur öðlingur ársins.

Ársskýrsla sambandsins kom út á þinginu og hana má nálgast á www.hsk.is, undir liðnum fundargerðir.

Mynd: Heiðrún Anna og Breki íþróttafólk HSK 2020.