Fara á efnissvæði
21. júní 2019

Gamlir vinir keppa saman á ný á Landsmóti UMFÍ 50+

Bóndinn og skrifstofustjórinn Ingveldur H. Ingibergsdóttir tók þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ í fyrsta sinn í Hveragerði árið 2017. Hún segir mótið vera flott. Ingveldur er ein þeirra sem prýða kynningarefni Landsmóts UMFÍ 50+. Myndin hér af Ingveldi, sem er í miðjunni, var tekin þegar hún var nýorðin fimmtug og mætti á sitt fyrsta mót í Hveragerði árið 2017. Þar tók hún þátt í ýmsum greinum. 

„Ég hef verið með annan fótinn í frjálsum íþróttum. Ég keppti í þeim þegar ég var yngri og var um tíma starfsmaður og þjálfari og í stjórn Frjálsíþróttasambandsins. Í aðdraganda mótsins í Hveragerði myndaðist stemning í vinkvennahópnum. Gamlir vinir fóru að ýta á hinar vinkonurnar að taka þráðinn upp að nýju og taka þátt. Við vinkonurnar fórum í Hveragerði. Þar tók ég þátt í frjálsum, utanvegahlaupi og auðvitað stígvélakastinu. Aðrar fóru líka í sund,“ segir Ingveldur.

„Mér fannst þetta rosalega flott mót og félagsskapurinn fínn. Ég skemmti mér líka mjög vel,“ segir Ingveldur. 

Það var glatt á hjalla hjá þeim Ingveldi, Kristínu Kristjánsdóttur og Ólöfu Jónsdóttur þegar þær urðu fremstar í  utanvegahlaupi í Hveragerði. Allar tóku þær þátt í nokkrum greinum. 

 

Viðtalið við Ingveldi er í blaði Landsmóts UMFÍ 50+ sem er nýkomið út. Blaðið má lesa á Netinu. Þar er líka allt um greinarnar sem í boði eru og öll dagskrá mótsins. Smelltu á hlekkinn hér að neðan og þar geturðu lesið blaðið: 

Mótablað Landsmóts UMFÍ 50+

 

Með hverjum ætlar þú á Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað dagana 28. - 30. júní? 

Skráningu á Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað lýkur þriðjudaginn 25. júní

Allar upplýsingar um mótið er að finna hér og þar geturðu líka skráð þig: Landsmót UMFÍ 50+

 

Hér eru fleiri myndir frá Landsmóti UMFÍ 50+

Sjáumst í Neskaupstað!