Geggjuð ráðstefna um hreyfingu eldri borgara
„Þetta var alveg geggjuð ráðstefna. Það sem stendur upp úr að bylting hefur orðið í öldrunarmálum á örfáum árum og mikill skilningur á mikilvægi þess að eldra fólk hreyfi sig. Með aukinni hreyfingu er fólk að bæta góðum árum við lífið,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara (LEB).
Landssambandið, Öldrunarráð Íslands og ÍSÍ stóðu í gær saman að ráðstefnunni Rokkað inná efri ár – Nýjar forvarnarleiðir. Ráðstefnan var mjög vel sótt.
Fjöldi erinda var á ráðstefnunni sem snýr að heilsueflingu eldri borgara. Þar á meðal var rætt um aldursvænar borgir, endurhæfingu í heimahúsi og horfur í öldrunarþjónustu.
Þórunn segir skipulagða hreyfingu eldra fólks skila miklum árangri. Árangurinn komi hvað skýrast fram á hjúkrunarheimilum þar sem hugað hefur verið að heilsueflingu.
„Fólk var fast í sætum sínum og átti orðið erfitt að standa. Starfsfólk og fleiri innleiddu reglulegar styrktaræfingar. Og nú er fólk farið að ganga aftur,“ segir Þórunn og er geysilega ánægð með árangurinn sem náðst hefur í heilsueflingu eldri borgara.
Á meðal þeirra sem höfðu erindi á ráðstefnunni var Janus Guðlaugsson íþróttafræðingur en hann fjallaði um fjölþætta heilsurækt í sveitarfélögum og verkefni sem hann hefur innleitt víða.
Janus segir fólk sem komið er upp að og yfir sjötugt það sem hlustaði á Hljóma og Trúbrot. Það hugsi öðruvísi en kynslóðin á undan henni og hugi að heilsunni. „Þau vilja fá betri ráðleggingar um bætta heilsu,“ segir hann.
Myndin hér að ofan er frá Íþrótta- og leikjadegi Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra (FÁÍA) sem fram fór á Öskudag.