Fara á efnissvæði
28. ágúst 2021

Gegn öllu ofbeldi

Af gefnu tilefni vill UMFÍ benda á leiðir sem unnt er að nýta þegar upp koma vísbendingar um ofbeldisverk af hvaða tagi sem það er.

UMFÍ leitast við að koma í veg fyrir hvers konar ofbeldi. Komi slík mál upp er mikilvægt að koma þeim í þann farveg sem nú er til staðar innan hreyfingarinnar enda er þar reynt að styðja við og vernda alla hlutaðeigandi þar sem ljóst er að þolendur og gerendur þurfa á aðstoð að halda.

Í öllum tilvikum eru málin tekin úr höndum viðkomandi - þ.e. úr því nærumhverfi sem málin koma upp í - og þau sett í faglegt ferli.

 

Æskulýðsvettvangurinn

Þegar grunur vaknar um einelti, kynferðisofbeldi eða aðra óæskilega hegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi er hægt að hafa samband við Æskulýðsvettvanginn þar sem til staðar eru mjög skýrir verkferlar um þau skref sem taka við.

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur UMFÍ, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Æskulýðsvettvangurinn stendur m.a. fyrir námskeiði sem ætlað er að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsfélögum um land allt á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og afleiðingunum af því.

Kynna sér námskeiðið betur

Samskiptaráðgjafi í íþrótta- og æskulýðsstarfi

Samskiptaráðgjafi í íþrótta- og æskulýðsstarfi tók til starfa árið 2019.

Starf samskiptaráðgjafa nær til allrar skipulagðrar starfsemi eða starfsemi í tengslum við hana á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og æskulýðssamtaka sem starfa á grundvelli æskulýðslaga.

Markmið samskiptaráðgjafa er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

 

Mikilvægt að fólk finni til öryggis

Mikilvæga atriðið er að þegar mál koma á borð Æskulýðsvettvangs eða til Samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsstarfi er málið tekið úr nærumhverfi málsins, þ.e. úr höndum þess félags sem málið kemur upp hjá og það sett í hendur fagaðila. Það er lykilatriði til að vernda alla hlutaðeigendur og til að þolendur og gerendur fái aðstoð hlutlausra sérfræðinga.

Atvikin geta verið af ýmsum toga sem kunna að koma í íþrótta- og/eða æskulýðsstarfi. Mikilvægt er að bregðast við þeim. Erfitt er að gera þeim öllum skil en mikilvægt að hafa ákveðnar grunnreglur og fylgja samræmdum verklagsreglum og viðbragðsáætlunum.

 

Mikilvægar vefsíður og tenglar

Æskulýðsvettvangurinn

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs