Fara á efnissvæði
13. mars 2023

Gera gott starf enn betra

„Þetta er hæsta upphæð sem við höfum greitt út til aðildarfélaga UMFÍ og nýtist til að bæta hreyfinguna fyrir alla,“ segir Sigurður Óskar Jónsson, formaður Sjóða- og fræðslunefndar, sem jafnframt er stjórn Fræðslu- og verkefnasjóðs UMFÍ.

Sjóðurinn úthlutaði undir lok síðasta árs 14,2 milljónum króna til 105 verkefna. Þetta er hæsta upphæð sem úthlutað hefur verið úr sjóðnum í einu. Alls bárust sjóðsstjórn 129 umsóknir að þessu sinni.

Sjóðsstjórn úthlutar styrkjum úr Fræðslu- og verkefnasjóði tvisvar á ári og var þetta síðari úthlutun ársins. Fyrri úthlutun ársins var að vori og hljóðaði hún upp á 10,8 milljónir króna. Sjóðurinn hefur því styrkt verkefni á vegum félaga innan UMFÍ fyrir um 25 milljónir króna á þessu ári.

Markmið Fræðslu- og verkefnasjóðs er að styrkja félags- og íþrótta- starf ungmennafélagshreyfingarinnar í samræmi við stefnu UMFÍ, m.a. með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun í félagsmálum og félagsstarfi. Rétt til umsóknar úr sjóðnum eiga sambandsaðilar UMFÍ, aðildarfélög sem eru virk í starfi og deildir innan þeirra. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum.

Fræðslusjóður var stofnaður árið 1943 til minningar um Aðalstein Sigmundsson, sem var formaður UMFÍ árin 1930 til 1938. Verkefnasjóðurinn var stofnaður árið 1987. Á 47. sambandsþingi UMFÍ sem haldið var á Akureyri árið 2011 var samþykkt að sameina sjóðina og ber hann heiti þeirra beggja. Tekjustofn sjóðsins er 7% af lottótekjum UMFÍ.

Á meðal þeirra verkefna sem Fræðslu- og verkefnasjóður hefur styrkt eru söguskráning félaga og átak til að fjölga iðkendum, þar á meðal stelpum í fótbolta hjá Þrótti Vogum. 

 

Varðveita sögu Snæfells

Ungmennafélagið Snæfell er á meðal félaganna sem fékk styrk til að varðveita sögu félagsins. Í gegnum árin hefur félagið safnað fjölda muna og stefnt að því lengi að gera þá aðgengilega almenningi.

Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson, formaður ungmennafélagsins, segir það að minnsta kosti tvisvar hafa fengið styrk vegna þessa, en verkefnið snýst um varðveislu gamalla muna sem þau í Ungmennafélaginu hafa í fórum sínum og hafa fengið frá ýmsum stöðum í gegnum tíðina.

 

 

„Þetta eru gamlir munir sem við eigum. Fundargerðabækur og ýmislegt sem okkur hefur áskotnast í gegnum tíðina. Við fengum til dæmis muni úr dánarbúi Ágústar Bjartmars, sem var sexfaldur íslandsmeistari í badminton á sínum tíma. Þaðan áskotnuðust okkur gamlir badmintonskór, badmintontaska, spaðar og fullt af myndum og skjölum. Síðan erum við með fundargerðabækur allt frá stofnun Snæfells, stofnfundinn sjálfan og allt saman. Þar eru stofnfélagarnir skráðir og allt sem gerðist. Íþróttanefnd hélt utan um öll mót á vegum félagsins á árum áður. Þá var allt skráð, öll úrslit og slíkt. Þetta er því talsvert magn af munum sem við eigum en þetta eru mest bækur, einkum fundargerðabækur. Okkur hefur tekist vel að halda utan um alla söguna og að eiga til allar fundargerðabækur frá stofnun er ansi merkilegt, held ég. Þetta er mjög metnaðarfullt og mikilvægt verkefni til þess að varðveita sögu Snæfells,“ segir Hjörleifur. Styrkurinn fór í að sérsmíða glerskápa utan um munina sem eru í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi. Þetta er heljarinnar verk og sér fyrir endann á því í maí árið 2023.

 

Opnað verður fljótlega fyrir umsóknir fyrir vorúthlutun Fræðslu- og verkefnasjóðs UMFÍ og því um að gera og fylgjast með.

Hér er hægt að lesa meira um sjóðinn

 

Viðtölin og umfjöllunin um Fræðslu- og verkefnasjóð eru í Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

Hægt er að lesa blaðið allt á www.umfi.is