Fara á efnissvæði
06. mars 2023

Gerir íþróttafélagið mitt gagn?

Það er eðlilegt að spyrja spurninga eins og þessarar endrum og eins. Af hverju erum við annars að þessu, að mæta á völlinn og á æfingar í misgóðu  æfingahúsnæði, í kulda og trekki, vinna í sjoppunni á leikjum barna okkar og vina og leggja eitt og annað á okkur fyrir félagið sem við styðjum?

Af því að það er gaman og það gerir okkur gott. 

Þátttaka í skipulögðu starfi íþróttafélaga gerir gagn. Sem foreldrar, stuðningsfólk, sjálfboðaliðar liða og félaga erum við bakhjarlar alls þess starfs sem íþróttafélögin og annað skipulagt félags- og tómstundastarf byggir á. Á sama tíma og við styðjum félagið hjálpum við öðrum og bætum samfélagið. 

 

 

Við hjá UMFÍ og íþróttahreyfingin fylgjumst grannt með stöðu mála og líðan iðkenda í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Við notum til þess gögn úr  samstarfsverkefni UMFÍ og ÍSÍ, niðurstöður úr spurningalistum sem lagðir eru fyrir nemendur í 8. til 10. bekk grunnskóla. Niðurstöðurnar eru birtar í Ánægjuvoginni, sem sýnir okkur árangurinn af skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. 

 

Iðkendum líður betur

Niðurstöðurnar sýna svart á hvítu kosti skipulagðs starfs. Iðkendum líður betur Síðasta könnun Ánægjuvogarinnar var gerð vorið 2022. Niðurstöðurnar sýna að börnum og ungmennum líkar vel við íþróttafélög sín og þjálfara. Nemendum sem svöruðu spurningunum um allt land finnst mörgum gaman á æfingum, sem er ánægjulegt. En íþróttir hafa góð áhrif og aldrei er of oft hamrað á því að nemendur sem stunda íþróttir í skipulögðu starfi eru almennt sáttari við lífið og tilveruna
en þeir sem standa utan við íþróttastarfið. 

 

 

Munurinn er sláandi. Iðkendum hjá íþróttafélögum líður almennt vel. Þeir sofa betur en aðrir og telja heilsu sína betri en þeirra sem ekki stunda reglulegar
íþróttir í skipulögðu starfi. Jákvæðir iðkendur sem hafa heilbrigt líferni að leiðarljósi eru ólíklegri en aðrir til að leiðast út í óæskilega hegðun. Hinir byrja að drekka fyrr og sofa verr og meiri líkur eru á að þeir leiðist út í áhættuhegðun. 

Niðurstöðurnar staðfesta því öðru fremur forvarnargildi og mikilvægi skipulags íþrótta- og æskulýðsstarfs á Íslandi. Það sem skiptir ekki síður máli er að sjálfsmynd
einstaklinga í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er sterkari en annarra. Iðkendur standa einfaldlega traustum fótum og geta ákveðið að halda ekki lengra – jafnvel stöðvað aðra – þegar óæskileg leið stendur til boða. 

Þetta er lykilatriði til framtíðar og samfélaginu til góða. 

Upplýsingarnar sem hér hafa verið nefndar ríma við niðurstöður Embættis landlæknis og birtast í Lýðheilsuvísum embættisins. 

 

Fáum alla með

Eins og áður segir sýna niðurstöður Ánægjuvogarinnar glöggt forvarnargildi skipulags íþróttastarfs. Í samræmi við það þarf að ná betur til barna, ungmenna og annars fólks sem af einhverjum ástæðum tekur ekki þátt  í skipulögðu starfi eða upplifir sig ekki sem hluta af menginu. Gögnin úr Ánægjuvoginni sýna að hlutfallslega fleiri strákar en stelpur taka þátt í íþróttastarfi. Stúlkur og kynsegin gera það síður. Börn og ungmenni af erlendu bergi brotin og fólk með fatlanir sömuleiðis. 

 

 

Ýmsir falla af ýmsum ástæðum utan hópsins. Við þurfum því að snerta við öðrum og hjálpast að til að finna leiðir til að opna dyr íþróttafélaga sem flestum. Það getur kallað á að fólk þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt til að uppfylla mismunandi þarfir iðkenda svo að sem flestir geti tekið þátt og verið með í starfinu.
Gerum þess vegna gott starf betra og styðjum íþróttafélagið okkar.

 

Niðurstöður úr Ánægjuvoginni

Skýrsla Ánægjuvogarinnar var þetta árið gefin út eftir skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi í íþróttahéraða. Með þeim hætti er mögulegt að skoða niðurstöðurnar 
í samanburði við lýðheilsuvísa Embættis landlæknis. Til viðbótar fær hvert íþrótta- og ungmennafélag með fleiri en 15 iðkendur úr þeim árgöngum sem svöruðu spurningunum sérstaka félagsskýrslu með lykiltölum úr Ánægjuvoginni frá iðkendum viðkomandi félags. Landshlutaskýrslurnar voru sendar forsvarsfólki héraðssambanda og íþróttabandalaga ásamt skýrslum íþróttafélaga.

 

 

Niðurstöður Ánægjuvogarinnar er greinanlegar eftir landshlutum og er hægt að skoða þar ýmislegt sem tengist þátttöku í skipulögðu í þrótta- og æskulýðsstarfi. Þú getur smellt hér að neðan og farið beint inn á verkfærakistuna á heimasíðu UMFÍ. Þar eru heilmiklar upplýsingar.

 

Umfjöllunin er í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur lesið allt blaðið á www.umfi.is.