26. júlí 2018
Get ég skráð marga á Unglingalandsmót UMFÍ í einu?
Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn er nú í fullum gangi og er hægt að skrá þátttakendur til 30. júlí næstkomandi. Skráningar ganga afar vel og má búast við gífurlegum fjölda á mótið.
Mótið er fyrir 11 – 18 ára og þurfa þátttakendur hvorki að vera í ungmenna- né íþróttafélagi til að taka þátt í mótinu. Ekki er heldur nauðsynlegt að vera í liði til að taka þátt í liðakeppnum. Ef viðkomandi er ekki í liði er hann settur í lið með fleiri stökum.
Nokkrar spurningar hafa vaknað hjá þeim sem eru ýmist að skrá börn sín eða sjálfa sig á á Unglingalandsmótið. Hér eru helstu spurningarnar og svör við þeim.
- Er hægt að skrá þátttakanda á mótið og velja greinar án þess að greiða þátttökugjaldið?
- Svar: Nei. Greiða þarf þátttökugjaldið til að geta valið greinar.
- Getur einn skráð marga í liði til keppni í einu?
- Svar: Nei, það er ekki hægt. Fararstjórar og þjálfarar eða fulltrúar liða gátu áður fyrr skráð heilu liðin til keppni. Breyting á Persónuverndarlögum valda því að slíkt er ekki lengur hægt. Nú getur aðeins einstaklingur eða forráðamaður skráð eigin börn og ungmenni á mótið. Þetta þýðir að foreldrar geta aðeins skráð sín eigin börn en ekki vini barnanna.
- Get ég séð hverjir eru saman í liði á Unglingalandsmótinu?
- Svar: Nei, það er ekki hægt. Áður fyrr var það hægt. En breyting á Persónuverndarlögum gera það að verkum að slíkt er ekki leyfilegt.
- Hvernig vel ég lið á Unglingalandsmótinu?
- Svar: Við skráningu í liðagreinar á mótinu er gluggi þar sem skrifa á nafn liðsins. Mikilvægt er að hafa nafn liðsins á hreinu og að allir skrifi það eins. Sem dæmi er munur á því að skrifa nafn liðs „Prinsessurnar“ eða prinsessurnar“. Að sama skapi verður að gæta að stafsetningu.
- Þátttakandi er ekki í liði. Hvað geri ég þá?
- Svar: Við skráningu í liðagreinar er gluggi þar sem skrifa á nafn liðs. Ef þátttakandi er ekki í liði á að skrifa annað hvort „Vantar lið“ eða „Ekki í liði“. Þátttakandi er síðan settur í lið með fleirum í sínum aldurs- og kynjaflokki sem ekki eru í liði.
Meira um Unglingalandsmót UMFÍ á www.ulm.is