Gildi UMFÍ endurspeglast í samfélagsverkefni í Reykjanesbæ
„Þetta verkefni er kjarni gilda UMFÍ, að stuðla að betri einstaklingum, öflugri félögum og bættu samfélag fyrir okkur öll. Gildin um þátttöku á breiðum grundvelli og að allir taki þátt á eigin forsendum eiga svo sannarlega eftir að koma í ljós í þessu verkefni. Árangurinn verður fólginn í jákvæðum áhrifum á líf fólksins, einstaklinganna og samfélagsins í heild. Þetta er ungmennafélagsandinn,“ sagði Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, í erindi sem hún hélt við undirritun samninga um samfélagsverkefnið Allir með! í Reykjanesbæ í dag.
Verkefnið er liður í verkefni Reykjanesbæjar að verða fjölskylduvænn bær. Þar er hugað sérstaklega að vellíðan barna, jákvæðum samskiptum þeirra og sterkri félagsfærni. Þetta er gert með áherslu á þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, því allt bendir til þess að samfélagsleg virkni leiði til betri líðan, jákvæðari samskipta, sterkari félagsfærni og þess að fólk sé hluti af samfélagsheildinni.
Í verkefninu er einblínt á alla en horft líka sérstaklega til þeirra sem reynist það meiri áskorun að taka þátt en öðrum. Lögð er sérstök áhersla á börn af erlendum uppruna og börn sem ekki eru nú þegar í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.
Í verkefninu munu 6.000 einstaklingar, eða hátt í 30% íbúa Reykjanesbæjar, fá fræðslu, þjálfun og menntun í gegnum verkefnið frá um 60 mismunandi starfsstöðum sem koma að barnastarfi í sveitarfélaginu, sama hvort um sé að ræða danskennara, skátaforingja, barnaverndarstarfsmann eða stuðningsfulltrúa og allt þar á milli.
Félagsmálaráðuneytið styrkir verkefnið og er UMFÍ aðili að verkefninu því Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag, og ungmennafélag Njarðvíkur skipa stóran sess í því ásamt ráðgjafafyrirtækinu KVAN.
Við undirskriftina í dag voru viðstaddir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar auk fulltrúa KVAN og ungmennafélaganna beggja.
Kjartan fagnaði aðkomu UMFÍ að verkefninu og mikilvægt að halda gildum ungmennafélagshreyfingarinnar á lofti.
„Þegar allir eru með þá erum við sterkari. Fjölbreyttar áskoranir blasa við samfélaginu og mikilvægt að huga að velferð barna og barnafjölskyldna. Við þurfum öll að vinna saman að því verkefni. Þess vegna höfum við kallað saman þennan hóp,“ sagði hann og lagði áherslu á að legið hafi beint við að fá Ungmennafélag Njarðvíkur og Keflavíkur til að leiða verkefnið áfram ásamt KVAN.
Auður sagði í erindi sínu frábært að sjá félagsmálaráðuneytið styrkja starf á nærvettvangi og grasrótarstarf í samstarfi við sérfræðinga.
„Það er frábært að sjá samstarfið, því ég hef trú á því að samstarf muni skila margfeldisáhrifum, miklum meiri en ef hver væri í sínu horni með flott einstök verkefni. Það er líka frábært að sjá frumkvæði starfsmanna vaxa, verkefni sem byrjaði á einum fyrirlestri og verða að því stóra verkefni sem fer af stað hér. Ég segi að stundum köstum við út boltum út í hreyfinguna og fáir grípa. En hér í Reykjanesbær er svo sannarlega einhverjir sem grípa boltann og allir í sama liðinu. Ég hlakka til að taka þátt í verkefninu og sjá árangurinn,“ sagði hún.
UMFN, Keflavík og KVAN skrifuðu undir samning um verkefnið og innsigluðu það með formlegum hætti.