Gísli ráðinn verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ
„Mér finnst þetta ógurlega spennandi verkefni. Ég hef skipulagt mikið af stórum veislum en ekkert í líkingu við þetta. Þess vegna er gott að hafa á bak við mig stóran hóp á Höfn sem þekkir vel til mótahalds af þessari stærðargráðu,“ segir Gísli Vilhjálmsson. Hann hefur verið ráðinn verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið verður á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina.
Gísli er aðfluttur Hornfirðingur, borinn og barnfæddur í Breiðholtinu. Hann flutti austur á Höfn í kringum 1990 og hefur þar heldur betur fest ræturnar. Hann rak ásamt fjölskyldu sinni og fleirum hótel Höfn og veitingastaðinn Ósinn um árabil auk þess að vinna mikið fyrir Ungmennafélagið Sindra. Börn hans hafa jafnframt gert það gott í blaki á Höfn og með landsliðum.
Vann hjá sjálfum mér í 25 ár. Hætti því fyrir þremur árum. Hef unnið fyrir Sindra og fyrir aðalstjórn USÚ og knattspyrnudeildina.
Gísli segir mikla stemningu þegar á Höfn fyrir Unglingalandsmóti UMFÍ og mikill metnaður í að gera gott mót.
„Þetta er í þriðja sinn sem við höldum Unglingalandsmót UMFÍ og því þekkjum við það ágætlega. En svo er hópurinn allur hér sem kemur að mótahaldinu og undirbúningnum þéttur. Það léttir verkið og gerir það bæði gefandi og skemmtilegt,“ segir hann.
Meira um Unglingalandsmót UMFÍ
Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag til að koma á Unglingalandsmót UMFÍ.
Þátttökugjald er 7.500 krónur.
Skráning á mótið hefst 1. Júlí. Nánari upplýsingar má finna á:
Facebook-síðu Unglingalandsmóts UMFÍ
Vefsíðu mótsins: www.ulm.is