Gissur: Við þurfum að standa saman
„Þetta er auðvitað áfall fyrir félagið. En við metum samfélagslega ábyrgð okkar í þessu ástandi meiri en einstaka viðburði. Við erum öll í þessum saman og þurfum að standa okkur,“ segir Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Selfoss.
Félagið hefur bæst í hóp þeirra sem hefur þurft að fresta viðburðum sínum. Þar á meðal eru Olísmótið sem halda átti í 16. skipti dagana 7.-9. ágúst, sem og Brúarhlaupið sem halda átti 8. ágúst, sama dag og og bæjarhátíðin Sumar á Selfossi átti að fara fram. Og svo var það auðvitað Unglingalandsmót UMFÍ sem halda átti um síðustu verslunarmannahelgi.
UMFÍ frestaði öllum stóru viðburðum sínum sem fara áttu fram í sumar um ár, þ.e.a.s. Íþróttaveislunni sem halda átti í Kópavogi, Landsmóti UMFÍ 50+ og Unglingalandsmótinu. Allir viðburðirnir fara fram að ári. Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði sem fyrirhugað var að halda á Laugarvatni í apríl var færð inn í haustið og er stefnt að því að halda hana dagana 16.-18. september nema annað kemur upp á.
ÍBR ætlaði jafnframt að standa fyrir Reykjavíkurmaraþoninu jafnframt 22. ágúst næstkomandi. Hlaupið verður því miður ekki á þessu ári. Þess í stað var fundin frábær lausn. Hver og einn getur skráð sig og safnað áheitum fyrir sitt góðgerðarfélagið. Hlaupaátakið hefst á morgun, laugardaginn 15. ágúst og stendur það til 25. ágúst 2020. Áheitasöfnun lýkur miðvikudaginn 26. ágúst 2020.
UMFÍ hvetur hlaupara til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu og skrá sig á hlaupastyrkur.is.
ÍBR er einn sambandsaðila UMFÍ. Sambandsaðilar UMFÍ eru 28 talsins sem skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 460 félög innan UMFÍ með rúmlega 300 þúsund félagsmenn.