Fara á efnissvæði
28. júní 2022

Gönguleiðir eru fornleifar sem þarf að nota

„Ég byrjaði að ganga með ömmu minni þegar ég var á leikskólaaldri. Amma var mikið fyrir útiveru og hún lífgaði upp á göngurnar með sögum af landinu. Ég reyni að miðla því áfram í Wappinu,“ segir göngugarpurinn Einar Skúlason. Viðtalið við Einar birtist í nýjustu Göngubók UMFÍ sem var að koma út. 

Göngubókin hefur komið út í 20 ár eða síðan árið 2002. Upphaf hennar má rekja til þess að Umhverfisnefnd UMFÍ vildi auka þekkingu fólks á landinu og kynna það fyrir landsmönnum, líka svo það fari betur með náttúruna og læri að umgangast hana. 

Göngubókin er í sífelldri endurnýjun. Í nýjustu bókinni er lýsing á 272 gönguleiðum fyrir alla sem geta gengið, kort og ítarlegar leiðalýsingar á flestum leiðum og 32 léttar fjallgönguleiðir fyrir alla fjölskylduna. Einnig má í bókinni lesa sér til um ýmis ráð á gönguferðum.

 

 

Göngubók UMFÍ er að hluta til unnin í samstarfi við Einar og er hann í röðum þeirra sem hafa gengið manna mest um stokka og steina. Hann hefur líka leitt fjölda fólks í gönguferðum
um landið í gönguhópnum Veseni og vergangi. 

 

Takk amma!

Einar þakkar ömmu sinni gönguáhugann, sem þó var ekki kominn af góðu: „Amma fékk berkla þegar hún var níu eða tíu ára og bjó í Eyjafirði. Hún og nokkrir nemendurnir í sama bekk smituðust af kennaranum. Þau voru öll flutt á berklahælið í Kristnesi og þar dó kennarinn og allir hinir nemendurnir. Amma var sú eina sem komst lífs af. Hún var á hælinu í á annað ár. En þegar hún var orðin góð reyndist hún orðin ónæm fyrir berklum og fékk vinnu á hælinu. En þarna var innprentað í hana að stunda daglega útiveru og útivist, göngur og aðra heilbrigða hreyfingu til að bæta líkamlega ástandið. Það tókst,“ segir Einar og bætir við að amma sín hafi allt sitt líf hlýtt ráðum læknanna á berklahælinu og stundað útiveru.

Einari fannst gaman að hlusta á sögurnar hennar ömmu þar sem þau gengu mikið í Botnsdal í Hvalfirði, þar sem afi og amma Einars áttu bústað, og um fjörur og hlíðar skammt frá Hvalstöðinni og Olíustöðinni, þar sem afi hans vann og þau amma hans áttu annað heimili. 

„Við gengum mikið þarna og hún sagði mér sögur af huldufólki og álfum, benti mér á bobbana, skeljar og jaspís og talaði um umhverfið eins og það væri lifandi. Þetta reyni ég líka að gera þegar ég fer með fólki í göngur,“ segir Einar, sem byrjaði að ganga einn á eigin vegum á þessum sömu slóðum og í nágrenni við Glym. 

 

Sögur af landi í Wappinu

Einar segist vinna að því að miðla sögum af landinu eins og amma hans sagði honum í Wappinu, smáforriti sem hann bjó til fyrir nokkrum árum. Wappið er gönguapp sem geymir mikið safn fjölbreyttra GPS-leiðarlýsinga um allt Ísland. Í Wappinu eru leiðarlýsingar sem notast við kortagrunn kortafyrirtækisins Samsýnar og er ráðlagt að hlaða gönguleiðinni fyrir fram inn í símann áður en haldið er af stað í göngu.

 

 

Í Wappinu eru jafnframt ljósmyndir og upplýsingar um árstíðabundinn aðgang, bílastæði, almenningssalerni og, ef ástæða er til að benda á, hættur eða önnur varúðarsjónarmið á leiðunum. Það er vel hægt að mæla með Wappinu fyrir þá sem hafa gaman af gönguferðum.

Við mælum með því við göngugarpa sem vilja fræðast betur um ákveðnar slóðir og rata betur um stikaða stíga að opna Wappið og finna þá leið sem ætlunin er að ganga um. 

„Fjölmargar gamlar þjóðleiðir eru í Wappinu og göngur eftir góðum og gömlum leiðum snúast ekki bara um landslagið. Þær snúast líka um sögurnar og fólkið sem lifði og dó. Gömlu leiðirnar eru í raun fornleifar sem verður að nýta, annars glatast þær. Og þá er nú um að gera að nota þær til að bæta heilsu sína í leiðinni. Það er líka svo frábært að nýta stafrænu tæknina til að segja fólki frá leiðunum og varðveita þær,“ segir Einar að lokum og hvetur landsmenn til að reima á sig gönguskóna og spretta af stað.

 

Allir sem vilja þræða göngustíga um allt land og kynnast náttúru landsins geta nælt sér í eintak af Göngubók UMFÍ 2022. Bókin er í dreifingu og er fáanleg á flestum stöðum, í sjoppum, verslunum, sundlaugum og íþróttahúsum. 

Göngubók UMFÍ má líka finna á www.umfi.is: Smelltu hér og nældu þér í eintak!