Fara á efnissvæði
24. júní 2021

Golfklúbburinn Jökull er Vinnuþjarkurinn 2020

Stjórn Golfklúbbsins Jökuls á Snæfellsnesi hlaut á mánudag viðurkenninguna Vinnuþjarkur HSH vegna ársins 2020. Vinnuþjarkurinn 2020 er viðurkenning á óeigingjörnu starfi sjálfboðaliða innan raða aðildarfélaga Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) þar sem framtakssemi, nýsköpun, ást og umhyggja er höfð að leiðarljósi.

Viðurkenningin var afhent í kvöldverðarspjalli sem UMFÍ bauð stjórn og framkvæmdastjóra HSH uppá á veitingastaðnum Sker í Ólafsvík. Í spjallinu var rætt um ýmis mál, meðal annars lagði stjórn HSH lóð sitt á vogarskálarnar í stefnumótun UMFÍ.

Stjórn HSH notaði þá tækifærið og afhenti stórglæsilegan bikar, sem UMFÍ gaf sambandinu, til handa stjórnar Golfklúbbsins Jökuls.

Vinnuþjarkur HSH er viðurkenning á óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi aðila aðildarfélags HSH þar sem framtakssemi, nýsköpun, ást og umhyggja eru höfð að leiðarljósi.

Í Golfklúbbnum Jökli eru 80 félagsmenn. Stefnt er á að þeir fari yfir hundraðið þegar nýr Rifsvöllur verður vígður í júlí árið 2023 í tilefni af 50 ára afmæli klúbbsins.

Í starfsskýrslu Golfklúbbsins Jökuls kemur fram að árið 2020 hafi eins og hjá flestum verið mjög óvenjulegt. Á aðalfundi klúbbsins í maí hafi verið kynning á fyrirhuguðum framkvæmdum á nýjum golfvelli á Rifi. Þá var inniaðastaða í gamla Frystihúsinu standsett. Þar er púttaðstaða í háum klassa og golfhermir.

Þá segir í skýrslunni að mikill áhugi er á golfi á sambandssvæði HSH og mikið spilað á Fróðárvelli. Sérstaklega sé ánægjulegt hversu konum hefur fjölgað mikið. Haldið var kvennamót með skemmtilegum leikjum í lokin og var vel mætt.

Flatir á Rifsvelli voru mótaðar og sáð og borið á flatirnar og spírunardúkur settur yfir. Margir komu að verkinu og eru fleiri framkvæmdir á teikniborðinu.

Klúbburinn fjárfesti í lítilli dráttarvél með moksturstækjum og sandara sem vélin dregur. Vélakosturinn þykir nauðsynlegur við nýbyggingu á golfvelli og áframhaldandi umhirðu.

Stjórn klúbbsins hvetur félagsmenn til að vera duglega að taka nýliða með sér á völlinn.

Á myndinni hér að ofan má sjá þá sem afhentu bikarinn og veittu honum viðtöku. Það eru Hjörleifur K. (Kiddi) Hjörleifsson, formaður HSH, Jón Bjarki Jónatansson, formaður Golfklúbbsins Jökuls, þeir Ríkharður Kristjánsson og Hjörtur Guðmundsson, sem sitja í stjórn og mótanefnd Jökuls, auk Hjartar Ragnarssonar, ritara og formanns vallarnefndar Jökuls.