Fara á efnissvæði
23. febrúar 2021

Gott að geta haldið Fossavatnsgönguna

„Það eru ansi margir að bíða eftir Fossavatnsvatnsgöngunni. Aðalmálið er að geta haldið hana í einhverri mynd og þetta er alveg eins og við vorum að vona,‟ segir Kristbjörn Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Fossavatnsgöngunnar á Ísafirði.

Gangan fer fram dagana 15. – 17. apríl og einn stærsti skíðaviðburður landsins.

Kristbjörn segir forsvarsfólk Fossavatnsgöngunnar hafa verið í góðum og reglulegum samskiptum við heilbrigðisyfirvöld vegna göngunnar. Hún hafi verið skorin mikið niður á þessu ári til að uppfylla sóttvarnarráðstafanir. Allt verði gert til að allt fari vel.

„Við erum búin að skera fjölda þátttakenda niður um 50% niður í 550 manns og viljum ekki hafa fleiri þótt eftirspurnin sé mikil. Eins og ráðstafanir snúa nú að okkur þá megum við ekki gefa þátttakendum næringu í göngunni. En það er aukaatriði fyrir okkur og auðveldar skipulagið. En aðalatriðið fyrir okkur er að geta haldið Fossavatnsgönguna,‟ segir Kristbjörn.

Fossavatnsgangan á Facebook

Vefsíða Fossavatnsgöngunnar

 

Fossavatnsgangan er á vegum Skíðafélags Ísfirðinga, sem er aðildarfélag Héraðssambands Vestfirðinga (HSV). HSV er einn 28 sambandsaðila UMFÍ. Þeir skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn.

Sjá einnig: 

Diddi í Val: Ánægður að sjá áhorfendur aftur

200 áhorfendur leyfðir á íþróttaviðburðum