Fara á efnissvæði
01. febrúar 2019

Gott að vita af viðbragðsáætlun Æskuýðsvettvangsins

„Það er gott að vita af fagráði Æskulýðsvettvangsins. Ég er mjög ánægð með það því héraðssamböndin og aðildarfélög þeirra geta leitað til þess,“ segir Gunnhildur Hinriksdóttir, framkvæmdastjóri Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ). Hún tók á fimmtudag þátt í vinnustofu um ofbeldi í íþróttum og viðbrögð við þeim.

Håvard Ovregård, ráðgjafi norska Íþrótta- og Ólympíusambandsins og Íþróttasambands fatlaðra í Noregi, stýrði vinnustofunni. Ovregård stýrir vinnu sambandanna gegn kynferðislegri áreitn og ofbeldi og hefur tekið þátt í því að búa til norskar leiðbeiningar gegn kynferðislegri áreitni. Hann bjó nýverið til leiðbeiningar til þess að meðhöndla mál af þessum toga.

Håvard Ovregård er á myndinni hér að neðan.

 

 

Vinnustofan og ráðstefna um sama efni var haldin í tengslum við Reykjavík International Games 2019 sem nú standa yfir. Að ráðstefnunni og vinnustofunni komu Íþróttabandalag Reykjavíkur, ÍSÍ, UMFÍ, Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytið ásamt Háskólanum í Reykjavík.

 

Viðbragðsáætlun til að vinna eftir

Gunnhildur segir ljóst að ekki sé nóg að vera með siðareglur. Komi upp mál sem þurfi að skoða frekar þurfi að liggja fyrir hvað eigi að gera, viðbragðsáætlun sem vinna á eftir þegar komi upp mál sem þarf að leysa.

„Það er gott og gilt að hafa siðareglur. En ef svo ber undir – sem maður vonar að gerist ekki – að þær eru brotnar, hver eiga þá viðurlögin að vera ef þjálfari brýtur á iðkanda eða iðkandi á öðrum iðkanda?  Þetta getur verið mjög flókið og viðkvæmt. Hvað á til dæmis að gera við afreksmann í liði sem brýtur af sér? Þetta er hrikalega erfið spurning. Það verður áreiðanlega aldrei sátt um það hvað á að gera,“ segir hún og bendir á að auðvitað ætti að vera vísað í siðareglur í samningum við þjálfara og leikmenn, jafnvel eins skýrar og Ovregård sýndi í vinnustofunni. Á hinn bóginn sé erfitt að vita hvort þjálfarar og íþróttamenn sem félög semji við hafi lesið samninga og siðareglurr. Því sé mikilvægt að hafa einhver ráð sem sýni að viðkomandi hafi sannlega lesið þær.

Gunnhildur telur best að reglur og leiðbeiningar fyrir sambandsaðila og aðildarfélög komi að ofan og taki félögin það upp.

Hvað get ég gert?

Hér að neðan eru upplýsingar um helstu leiðir UMFÍ komi upp brot í félagi eða brotið á félagsmanni.

 

Viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins

Siðareglur UMFÍ

Heimild til upplýsingaöflunar úr sakaskrá ríkisins

Námskeiðið Verndum þau

 

Fleiri myndir frá vinnustofunni