Fara á efnissvæði
11. desember 2024

Gríðarleg gleði í afmæli ÍBA

„Þetta var frábær dagur enda snerist hann um að hafa gaman, kynnast aðildarfélögunum okkar og njóta með fjölskyldu og vinum. Fólk var svo ánægt að fá að kynnast öllum þessum greinum sem eru í boði hér á Akureyri að sú hugmynd kom upp að gera þetta jafnvel að árlegum viðburði,“ segir Helga Björg Ingvadóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA).

Bandalagið hélt upp á 80 ára afmælið með stórskemmtilegri hátíð í Boganum laugardaginn 7. desember síðastliðinn. Viðburðurinn var á léttum nótum, þar sem bæjarbúar og aðildarfélög ÍBA sameinuðust í gleði og samstöðu.

Helga segir að skipuleggjendur afmælishátíðarinnar hafi fengið aðgang að Boganum eftir miðjan dag á föstudag. Þá hafi sjálfboðaliðar aðildarfélaganna flykkst að til að hjálpa og setja upp sína bása og húsið fyllst af fjölbreyttum tækjum og tólum. Þar mátti meðal annars finna bíla, vélsleða, svifflugvél, báta og krossara. Á sama tíma höfðu hestamenn sett upp hnakkastatíf, mörk voru sett upp fyrir handbolta og fótbolta hægt var að fara á gönguskíði, prófa borðtennis,bogfimi, júdó, karate, blak, skautahlaup, íshokkí, skíðaskotfimi, kassaklifur og margt fleira.

„Við erum með hátt í 50 íþróttagreinar í boði á Akureyri. Fulltrúar næstum allra greina mættu, 17 af 20 aðildarfélögum, og var fólk hvatt til að prófa nýjar greinar,“ heldur Helga áfram.

Afmælishátíðin var á léttum nótum. Helga var kynnir. Við upphaf afmælisins fluttu gestir stutt ávörp en eftir það gátu gestir fengið að leika sér og prófa greinar. Á meðal þeirra sem fluttu ávörp voru Jóna Jónsdóttir, formaður ÍBA, Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, og Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ.

Afmælishátíðin var einkar fjölskylduvæn. Íþróttaálfurinn úr Latabæ var á svæðinu ásamt Andrési Önd og kettinum Klóa sem bauð gestum kókómjólk. Afmælisgestir á öllum aldri gátu líka satt hungur sitt með pylsum, ávöxtum og tilheyrandi í boði styrktaraðila hátíðarinnar.

Helga segir einkar mikla samstöðu í bæjarfélaginu enda er Akureyri mikill íþróttabær. Á formannafundi ÍBA í september hafi forsvarsfólk allra félaga kynnt starfsemi félaga sinna og rætt tækifæri og áskoranir. Það hafi þétt raðirnar og skilað því meðal annars að allir hjálpuðust vel að við undirbúning og framkvæmd afmælisins um helgina.