Guðmundur fékk ask og klementínu
Guðmundur L. Gunnarsson, framkvæmdastjóri ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi, fékk í dag loksins afhentan askinn góða. Eins og kunnugt er var Guðmundur valinn matmaður sambandsþings UMFÍ á síðasta þingi að Laugarbakka í Miðfirði í október. Guðríður Aadnegard, formaður Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK), afhenti Guðmundi askinn í þjónustumiðstöð UMFÍ.
Hefð hefur verið fyrir því síðan árið 1979 á þingum UMFÍ að velja matmann UMFÍ. Askurinn sem matmaður fær er afhentur í lok síðustu máltíðar þings UMFÍ þeim þingfulltrúa eða stjórnarmanni UMFÍ sem að mati dómnefndar er þess verðugastur að geyma gripinn til næsta þings. Við valið er m.a. horft til framgöngu í matar og kaffitímum þingsins, beitingu hnífapara, stíls, borðsiða og fleiri þátta. Dómnefnd er skipuð forseta þingsins og fyrrverandi matmanni.
Að mati dómnefndar var Guðmundur vel að asknum kominn. Hann hafi hrúgað salati á disk sinn á þinginu og ranghvolft í sér augunum þegar honum hafi verið boðið upp á fisk. Í stað þess hafi honum verið boðinn hamborgari.
Sá sem hampar nafnbótinni fær við þinglok afhentan farandbikar, fagurlega útskorinn ask til varðveislu í tvö ár. Á þinginu nú bar svo við að askurinn skilaði sér ekki og lofaði Guðríður að koma asknum til hans við tækifæri.
Guðmundur fór þrátt fyrir þetta ekki tómhentur frá þinginu því Guðríður gaf honum DVD-disk um sögu Landsmóta UMFÍ á HSK-svæðinu og próteinstöng sem hún fann í veski sínu. Við afhendingu asksins í dag laumaði Guðríður góðgæti í askinn, klementínu í tilefni jólanna.