Fara á efnissvæði
08. mars 2019

Guðmundur sæmdur gullmerki og Bragi nýr formaður

Guðmundur Þorsteinsson á Skálpastöðum í Lundareykjadal í Borgarfirði var sæmdur gullmerki UMFÍ á 97. sambandsþingi Ungmennsambands Borgarfjarðar (UMSB) sem haldið var í félagsheimilinu Brautartungu á miðvikudag.

Guðmundur var sæmdur gullmerkinu fyrir starf sitt í áranna rás fyrir Ungmennafélagið Dagrenningu. Hann hefur í þrígang verið kosinn formaður félagsins á árunum 1964-2011 og verið ritari stjórnar þess.

Það var Guðmundur Sigurbergsson, sem situr í stjórn UMFÍ, sem afhenti nafna sínum Guðmundi gullmerkið.

Hann heiðraði jafnframt nokkra sjálfboðaliða UMSB með starfsmerki. Merkið hlutu þau Ásgeir Ásgeirsson, Guðríður Ebba Pálsdóttir og Hrönn Jónsdóttir.

 

Nýr formaður UMSB

Á þinginu varð breyting á stjórn UMSB. María Júlía Jónsdóttir, sem verið hefur sambandsstjóri UMSB síðastliðin tvö ár, gaf ekki kost á sér á nýjan leik. Við sæti hennar tók Bragi Þór Svavarsson.

Nokkrar aðrar breytingar urðu á stjórninni og er hún svo skipuð: Bragi Þór Svavarsson, sambandsstjóri, Guðrún Þórðardóttir, vara sambandsstjóri, Hafdís Ósk Jónsdóttir, vara vara sambandsstjóri, Sigríður Bjarnadóttir, gjaldkeri, Bjarni Traustason, ritari, Rakel Guðjónsdóttir, meðstjórnandi, Ástríður Guðmundsdóttir, vara ritari og Eyjólfur Kristinn Örnólfsson, varagjaldkeri.

 

Myndir af Guðmundi frá Skálpastöðum og fleiri frá þinginu má sjá hér að neðan. Fleiri myndir má sjá á vefsíðu UMSB.