Fara á efnissvæði
21. janúar 2021

Guðríður hjá HSK: Gott að styðja við félögin

„Við erum mjög ánægð að geta greitt arðinn út til aðildarfélaganna. Þetta sýnir að íþróttahreyfingin er vel rekin og gott að nýta hann til að styðja við félögin,“ segir Guðríður Aadnegard, formaður Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK). Stjórn sambandsins ákvað á fundi sínum í vikunni að greiða aðildarfélögum sínum og sérráðum sérstaka aukagreiðslu í ljósi góðrar fjárhagsafkomu HSK í fyrra og vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu vegna COVID-faraldursins.

 

 

Upphæðin nemur 2,2 milljónum króna sem er jafn há upphæð og sem nemur öllum hagnaði HSK árið 2020. Guðríður segir stjórnina ekki hafa séð tilgang í því að setja fjármunina í sjóð, þeim sé betur varið hjá aðildarfélögunum í íþróttahreyfingunni.

Þetta er í fyrsta sinn sem HSK greiðir aðildarfélögum aukalega. Stjórn sambandsins í fótspor stjórnar Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) sem á milli jóla og nýárs ákvað að greiða aðildarfélögum sínum á höfuðborgarsvæðinu 10 milljónir króna í fyrra, fjármagn sem var í sjóði UMSK.

 

Lottó og getraunir styðja íþróttir

Hagnaður HSK er að stærstum hluta tilkominn vegna aukagreiðslu Íslenskrar getspár til eignaraðila sinna upp á 300 milljónir króna en það skýrist af góðri afkomu á síðasta ári. Upphæðin skiptist á milli ÖBÍ, ÍSÍ og UMFÍ, sem á 13,33% hlut í Íslenskri getspá. UMFÍ greiddi hlut sinn út til sambandsaðila í fyrrahaust, þar á meðal UMSK og HSK.

 

 

Ungmennafélag Selfoss fær hæstu greiðsluna, rúmlega 530 þúsund krónur, Íþróttafélagið Hamar tæplega 284 þúsund krónur og Íþróttafélagið Dímon og Ungmennafélagið Hekla fá rúmlega 104 þúsund krónur. Aðrar greiðslur eru undir 100 þúsund krónum. Forsendur skiptarinnar eru þær sömu og við lottóskiptingu.

Sambandsaðilar UMFÍ eru 27 talsins. Þeir skiptast í 21 íþróttahérað og sex ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ, með rúmlega 270 þúsund félagsmenn.

 

Sjá: UMSK styður aðildarfélög um 10 milljónir króna