Fara á efnissvæði
09. nóvember 2021

Guðríður hlaut Hvatningarverðlaun Dags gegn einelti

„Einelti er félagslegt vandamál og getur haft alvarlegar afleiðingar. Við vitum að tengsl eru á milli skólabrags og tíðni eineltis. Með þessa vitneskju í farteskinu höfum við starfsfólkið í Grunnskóla Hveragerðis lagt mikla áherslu á að skapa þægilegt andrúmlegt og stuðla að jákvæðum og góðum skólabrag,“ segir Guðríður Aadnegard, umsjónarkennari og námsráðgjafi við skólans. Guðríður er jafnframt formaður Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK). Hún hlaut í dag Hvatningarverðlaun Dags gegn einelti.

Dagur gegn einelti var haldinn hátíðlegur í skólum landsins í gær, mánudaginn 8. nóvember. 

Sú hefð hefur skapast að verðlaunin eru afhent daginn eftir þeim einstaklingi sem talinn er haft lagt mikið af mörkum til að gera samfélagið betra. Handhafi Hvatningarverðlaunanna er valinn úr innsendum tilnefningum til fagráðs eineltismála hjá Mennamálastofnun.

 

Klapp á bakið er næg hvatning

Verðlaunaafhending fór fram í Rimaskóla í Grafarvogi í morgun og væru mætt á viðburðinn Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur, formanns Heimilis og skóla, Sigrúnu Garcia Thorarensen, formanns fagráðs eineltismála og nemendur skólans ásamt fleirum.

 

 

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Guðríði verðlaunin. 

„Verðlaunin eru hvatning til náms- og starfsráðgjafa og umsjónarkennara til góðra verka. Þessir starfsmenn bera iðulega hita og þunga í eineltismálum. Guðríður hefur unnið frábært starf og ávallt beit árangursríkum aðferðum,“ sagði Lilja.

Guðríður sagði í ávarpi sínu heiður að taka við verðlaununum og sagðist mætt sem fulltrúi starfsmanna og nemenda grunnskólans í Hveragerði.

„Bros á tárvotu andliti, hlýlegt handtak foreldra, klapp á bakið frá stjórnendum og samstarfsfólki hefur verið mér næg hvatning og sönnun þess þess að sennilega er ég að gera rétt. Ég er í skemmtilegasta starfi í heimi. Það hefur gefið mér mikið og það hefur aldrei hvarflað að mér að ég hafi valið mér vitlausan starfsvettvang. Eg er afar stolt af því að starfa með börnum og ungmennum og geta lagt þeim lið þegar á bjátar,“ sagði hún og lýsti virkum samskiptum kennara við nemendur skólans og foreldra og forráðamenn þeirra með það fyrir augum að kanna líðan nemenda.

 

 

„Ég tel það lykilatriði upprætingu eineltis í skólanum að þar eru formleg foreldraviðtöl á hverjum vetri. Við byrjum haustið á foreldraviðtölum. Í viðtölin mæta nemendur með foreldrum eða forráðafólki. Í október og mars hringjum við í foreldra og ræðum sérstaklega við þau um líðan nemendanna,“ sagði hún en lagði áherslu á að helstu áhyggjurnar sem hún hafi sé hvernig hægt er að taka með markvissum hætti á neteinelti.

 

 

„Þar þarf að stíga með afgerandi hætti inn og vinna með okkur í skólunum að því að berjast af alefli gegn því. Foreldrar þurfa allir sem eitt, að huga að netnotkun barna sinna og ungmenna og mögulega grípa til þess ráðs að setja mörk á notkunin.

 

UMFÍ vinnur gegn einelti

UMFÍ er eitt af fjórum aðildarfélögum Æskulýðsvettvangsins (ÆV) en á meðal verkefna hans er að vinna gegn einelti. Um þessar mundir er stafrænt einelti ein af þeim birtingarmyndum ofbeldisins og vinnur Æskulýðsvettvangurinn gegn því.

Einelti er ekki liðið innan þeirra félaga sem saman mynda Æskulýðsvettvanginn (UMFÍ, Bandalag íslenskra skáta, Slysavarnafélagið Landsbjörg og KFUM og KFUK á Íslandi). Það er mjög mikilvægt að öllum líði vel í leik og starfi innan félaga UMFÍ og að sá grundvallarréttur, að fá að vera óáreittur, sé virtur. Því er mikilvægt að bregðast strax við málum sem koma upp í starfinu og leita allra leiða til þess að leysa úr þeim hratt og vel.

Sambandsaðilum UMFÍ stendur til boða að fá til sín námskeið um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála sem og námskeið um hatursorðræðu á netinu. 

Námskeið Æskulýðsvettvangsins eru þeim samtökum sem mynda vettvanginn og aðildarfélögum þeirra að kostnaðarlausu. Námskeiðið stendur öðrum aðilum einnig til boða, gegn gjaldi.

 

Allt um neteineltisnámskeið Æskulýðsvettvangsins

Meira um námskeiðin sem eru í boði

Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins