Fara á efnissvæði
14. október 2019

Gummi í Fjölni fékk próteinstöng

Guðmundur Lúðvík Gunnarsson, framkvæmdastjóri Fjölnis, var valinn matmaður UMFÍ á 51. sambandsþingi UMFÍ sem haldið var að Laugarbakka í Miðfirði um helgina. Hefð er verið fyrir því í 40 ár að velja matmanninn.

Guðríður Aadnegard, formaður Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK), tilkynnti val dómnefndar á síðasta degi sambandsþings UMFÍ á sunnudag. Hún sagði dómnefnd hafa horft til þess hvernig Guðmundur bar sig að í kvöldverði á laugardag. Hann hafi hrúgað salati á disk sinn og ranghvolft augunum þegar honum hafi verið boðið upp á fisk. Þess í stað hafi hann fengið þann svakalegasta hamborgara sem hún hafi séð, með frönskum og öllu. Hann hafi að sjálfsögðu gert ráð fyrir að hamborgarinn hafi verið sóttur í Staðarskála.

Sérstök dómnefnd á vegum þingsins velur matmann hverju sinni. Við valið horfir hún til framgöngu viðkomandi í matar- og kaffitímum þingsins, beitingu hnífapara, borðsiða og fleiri þátta. Dómnefnd skipa forseti þingsins og fyrrverandi matmaður. Sá sem hampar nafnbótinni fær við þinglok afhentan farandbikar, fagurlega útskorinn ask til varðveislu í tvö ár.

Nú bar svo við að askurinn skilaði sér ekki. Guðríður sagði því verða reddað, annað hvort komi hún með askinn til Guðmundar eða hann heimsæki HSK og sæki hann.

En Guðmundur fór ekki tómhentur heim því Guðríður gaf honum DVD-disk um sögu Landsmóta UMFÍ á HSK-svæðinu og próteinstöng sem hún fann í veski sínu.

Að því loknu fór hún með vísu fyrir hann.

 

Ég veit ekki hvort þú hefur

huga þinn við það fest,

að fegursta gjöf sem þú gefur

er gjöfin sem varla sést.

 

Ástúð í andartaki,

auga sem glaðlega hlær.

Hlýja í handartaki,

hjarta sem örar slær

 

Allt sem þú hugsar í hljóði

heiminum heyrir til.

Gef þú úr sálar sjóði

sakleysi, fegurð og yl.