Fara á efnissvæði
14. júlí 2017

Gummi tvíburi eignaðist fullt af vinum á Unglingalandsmóti UMFÍ

„Stemningin er á Unglingalandsmóti UMFÍ. Þar er maður frjáls, fær að vaka lengur, kynnist fullt af nýjum krökkum og alltaf úti með vinum sínum,“ segir Guðmundur Kári Þorgrímsson, sem slegið hefur í gegn í fimleikum. Hann hefur farið á Unglingalandsmót UMFÍ frá barnsaldri og fylgdi systrum sínum og foreldrum á mótið.

Guðmundur, eða Gummi tvíburi eins og margir þekkja hann, keppti á Unglingalandsmóti UMFÍ um leið og hann gat. Þá var hann 11 ára, bjó á Erpsstöðum við Búðardal og keppti undir merkjum Ungmennasambands Dalamanna- og N-Breiðfirðinga (UDN) í fótbolta, hástökki, langstökki og 1200m og 800m hlaupum. Þegar fimleikarnir komu inn á mótið á Egilsstöðum 2011 þá prófaði hann að keppa í greininni í fyrsta sinn. Gummi hafði aldrei æft fimleika fyrir mótið en hoppað mikið á trampólíni heima í sveitinni og gerði fimleikaæfingar úti á túni.

Eftir Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum fór Gummi að æfa fimleika á Akranesi og hefur hann náð frábærum árangi í greininni.

 

Vann brons á EM

Gummi er 18 ára í dag og æfir fimleika með Stjörnunni í Garðabæ. Í október í fyrra keppti hann með blönduðu unglingaliði Íslands á EM í fimleikum í Slóveníu í október 2016. Árangurinn var magnaður og hlaut liðið brons.

Guðmundur segir mestu skemmtunina á Unglingalandsmóti UMFÍ hafa falist í því að vera með jafnöldum sínum og kynnast nýjum krökkum. „Þetta er eitthvað sem allir þurfa að kynnast,“ segir Gummi tvíburi um Unglingalandsmót UMFÍ.

Skráning er í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á nýjan leik á Egilsstöðum. Unglingalandsmót UMFÍ fer alltaf fram um verslunarmannahelgi.

Unglingalandsmótið er vímulaus fjölskyldu- og íþróttahátíð fyrir 11-18 ára. Þátttakendur sem verða 11 ára á árinu geta skráð sig í fjölda greina. Þátttakendur þurfa hvorki að vera skráðir í ungmennafélag né íþróttafélag. Boðið er upp á meira en 20 keppnisgreinar á Unglingalandsmótinu, allt frá fjallahjólreiðum, skák, frjálsum og fótbolta til boccía og kökuskreytinga.

 

Þetta er í boði á mótinu

Fleiri góðar sögur af Unglingalandsmóti UMFÍ

Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, skráði stjúpson sinn á Unglingalandsmót í Borgarnesi 2016 með litlum fyrirvara. Þar keppti hann í skák og gerði góða hluti.

Þetta sagði Katrín um mótið.

Vinirnir hittast og skemmta sér á Unglingalandsmóti UMFÍ. Þú getur skráð þig hér:

Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ