Fara á efnissvæði
28. ágúst 2020

Gunnar endurkjörinn formaður UÍA

Gunnar Gunnarsson var endurkjörinn formaður á þingi Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) sem fram fór síðdegis í gær. Á sama tíma varð breyting á stjórninni þegar þær Auður Vala  Gunnarsdóttir og Pálína Margeirsdóttir gáfu ekki kost á sér áfram sem meðstjórnendur. Í þeirra stað komu þær Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir úr Neskaupstað og Þórunn María Þorgrímsdóttir frá Fáskrúðsfirði.

Þing sambandsaðila UMFÍ hafa legið niðri frá því hömlur voru settar á samkomur til að hefta mögulega útbreiðslu COVID-19. Þingi UÍA var frestað eins og öðrum þingum. Ákveðið var hins vegar að halda það í gær. Fyrirkomulagið var breytt frá hefðbundnu þingi að því leyti að boðað var til þess með rafrænum hætti og þingið haldi með fjarfundabúnaðinum Teams.

 

Með fyrirkomulaginu var blað brotið í sögu héraðssambanda því talið er að héraðssamband hafi ekki áður haldið þing með þessum hætti.

Gunnar segir þingið hafa verið að mestu mjög hefðbundið þrátt fyrir breyttar aðstæður, þó hafi ekki verið veitt starfsmerki eins og venja er.

„Það er kostur að halda þing með fjarfundabúnaði því UÍA er landfræðilega mjög dreift samband. Að því leyti sparar þetta tíma og peninga. Undirbúningurinn var sambærilegur og hefðbundin þing nema þingfulltrúar þurftu að senda inn netföng til að geta tekið við fundarboðum. Við þurftum að halda utan um netföngin. Fjarfundir ganga fyrir einfalda fundi og með því að hafa góðan fundarstjóra. Við vorum með Stefán Boga Sveinsson, forseta bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs. En krefjandi aðstæður geta komið upp. Fyrirkomulagið er nefnilega ekki gallalaust, því við hefðum sem dæmi átt erfitt með að leysa úr kröfu um leynilega atkvæðagreiðslu,“ segir hann.

Gunnar segir helsta þröskuldinn fyrir þing UÍA hafa verið að geta notað kerfið sem ræður við talsverðan fjölda. Hugbúnaðurinn Teams býður upp á mikinn fjölda notenda á hverjum fundi. UMFÍ bjó að lausninni. Því féll það í hlut þjónustumiðstöðvar UMFÍ að halda utan um netföng þingfulltrúa og boða gesti á fundinn.

Um 20 fulltrúar aðildarfélaga UÍA sátu þingið og voru þeir bæði á Austurlandi og í Reykjavík. Ef rýnt er í myndina sem tekin var í þjónustumiðstöð UMFÍ í dag má sjá hóp þingfulltrúa frá Leikni á Fáskrúðsfirði í einum glugganum. Á meðal gesta þingsins voru þær Líney Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, en þær fluttu auk þess ávörp eins og venja er á hefðbundnum þingum.

Öðrum sambandsaðilum UMFÍ stendur til boða að halda þing með þessum hætti og getur UMFÍ veitt aðstoð til að gera það.