Fara á efnissvæði
02. mars 2018

Gunnar Gunnarsson nýr framkvæmdastjóri UÍA

Stjórn Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) hefur gengið frá ráðningu Gunnars Gunnarssonar sem nýs framkvæmdastjóra sambandsins. Hann tekur við starfinu af Ester S. Sigurðardóttur sem er nýr rekstraraðili Löngubúðar á Djúpavogi.

Gunnar, oft þekktur sem „Gassi“, er fæddur árið 1960 og hefur lengst af ævi sinni búið og starfað á Akureyri. Hann var meðal annars framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA í áratug og gegndi síðan sama starfi fyrir knattspyrnudeildir FH og Fylkis.

Hjá KA stýrði Gunnar meðal annars N1 mótinu sem er eitt fjölmennasta knattspyrnumót sem haldið er á Íslandi á ári hverju. Þá hefur Gunnar reynslu af utanumhaldi Evrópuleikja í knattspyrnu auk þess sem hann gefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Knattspyrnusamband Íslands.

Gunnar fluttist austur í Egilsstaði fyrir ári en hann á ættir að rekja í Eiðaþinghá og á Fáskrúðsfjörð. Hann hefur að undanförnu starfað fyrir Valaskjálf. Gunnar kemur til starfa hjá UÍA um næstu mánaðarmót.

„Ég hlakka til að takast á við starfið. Mér líður vel á Austurlandi og tel svæðið eiga margvísleg tækifæri sem spennandi verður að vinna að,“ segir Gunnar.

„Það er mikils virði fyrir UÍA að fá jafn reynslumikinn mann og Gunnar til starfa. Við teljum þekkingu hans og tengsl nýtast vel í áframhaldandi þróun UÍA,“ segir Gunnar Gunnarsson, formaður sambandsins.