Fara á efnissvæði
02. mars 2023

Gunnar J. Helgason: Fékk kók og prins á sínum síðasta aðalfundi

„Þetta gerði ég með trega. En ég er að fara úr stjórn félags sem er í góðum málum og með bjarta framtíð,” segir Gunnar J. Helgason, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar Þróttar. Hann mætti á sinn síðasta aðalfund hjá ungmennafélaginu Þrótti Vogum í gærkvöldi. Í tilefni af því var boðið upp á kók og prins í boði félagsins.

Gunnar mætti á sinn fyrsta aðalfund hjá Þrótti Vogum tólf ára gamall árið 1985. Á fundinum var boðið upp á kók og prins eins og í gær. Hann fékk sæti í íþróttanefnd félagsins.

Gunnar segist hafa gengið í ungmennafélagið Þrótt Vogum um leið og hann hafði aldur til og ákveðið strax þá að leggja sitt af mörkum til þess.

„Við máttum ekki ganga í ungmennafélagið fyrr en við urðum tólf ára. Samfélagið var auðvitað lítið þá með um 600 íbúa og voru þess vegna allir teknir inn og virkjaðir. Ég fékk sæti í íþróttanefnd sem þá var til í félaginu og tók við sem formaður í henni þremur árum síðar,“ segir hann. 

Á þessum 38 árum sem liðin eru síðan hann mætti á fyrsta aðalfundinn hefur hann verið formaður aðalstjórnar (2015-2917), setið í aðalstjórn samhliða formennsku formennsku í knattspyrndeild.

Auk Gunnars hættu tveir aðrir stjórnarmenn í Þrótti og tveir nýir komu inn.

 

 

Fram kemur í skýrslu stjórnar Þróttar að sjálfboðaliðum sem starfa fyrir Þrótt hafi fækkað eftir COVID-faraldurinn. Á sama tíma setji samfélagið auknar kröfur á félagið. Tekið er fram að til þess að félagið nái að halda áfram á þeirri vegferð sem það er sé eitt af mikilvægari málum ársins 2023 að fjölga í hópi sjálfboðaliða.

Gunnar segir fólk verða að leggja sitt af mörkum til íþróttafélaga sem sjálfboðaliðar, jafnvel þótt aðstæður séu orðnar aðrar en þegar hann gekk til liðs við Þrótt fyrir 38 árum.  

„Það er mikilvægt að virkja sem flesta, sérstaklega í þetta litlu samfélagi,“ segir hann.

Lárus B. Lárusson, stjórnarmaður UMFÍ var gestur aðalfundar Þróttar og flutti þar ávarp fyrir hönd UMFÍ. Lárus ræddi m.a. um þá vinnu sem nú stendur yfir á vegum vinnuhópa ÍSÍ og UMFÍ um endurskoðun á fyrirkomulagi íþróttahéraða, sem hafi verið óbreytt um áratuga skeið. Vinnan miðar að því að efla íþróttahéruð og skerpa á hlutverki þeirra svo þau geti veitt betri og samræmdari þjónustu um allt land en áður.

 

Lárus sést hér á myndinni fyrir ofan með þeim Petru Ruth Rúnarsdóttur, formanni Þróttar, og Gunnari J. Helgasyni. 

Á myndinni fyrir neðan sést Lárus flytja erindi fyrir hönd UMFÍ.