Fara á efnissvæði
27. júní 2022

Gunnar Örn: Mikilvægt að bjóða upp á fjölbreyttar íþróttir

„Ég elska stígvélakastið…. og mótið! Þetta er allt svo ægilega gaman,“ segir skipasmiðurinn og íþróttakappinn Gunnar Örn Guðmundsson. Hann skráði sig í fjölda greina á Landsmóti UMFÍ 50+ í Borgarnesi um helgina og átti góðu gengi að fagna í mörgum þeirra. Hann tók þátt í stígvélakasti, frjálsum, skák og fleiri greinum og ætlaði að skrá sig í körfubolta. Svo margar voru greinarnar að hann náði aðeins hálfum leik í pútti áður en hann þurfti að haska sér til að keppa í frjálsum.

„Púttið var samt alveg skemmtilegt. Ég hafði bara aldrei prófað það áður,“ segir Gunnar og bætir við að hann hefði skráð sig í fleiri greinar ef þær hefðu verið í boði.

Algengt er að þátttakendur mótsins skrái sig til keppni í 2-3 greinum. Fá dæmi er um þátttöku í jafn mörgum greinum og Gunnar keppti í.

Það má reyndar segja að Gunnar sé með áskrift að mótinu því hann hefur mætt árlega frá því hann mætti á það fyrsta á Ísafirði árið 2016. Þá var hann 71 árs.

 

Fjölbreytnin er mikilvæg

Íþróttaferill Gunnars er langur og fjölbreyttur. Hann var mikið á hreyfingu á sínum yngri árum, hóf ferilinn í körfubolta með Njarðvík og varð Íslandsmeistari í júdó um þrítugt. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari í „old boys“-flokki í körfu.

Nú var Gunnar merktur Þrótti Vogum í bak og fyrir.

Gunnar, sem er 77 ára, segir það með skemmtilegri mótum að mæta á Landsmót UMFÍ 50+ því þar hitti hann menn sem hann hafi keppt við í körfubolta áður fyrr og hef ekki séð í 40 ár.

Gunnar hefur stundað allskonar íþróttir og auk þess tekið þátt í ýmsu sem telja má sem áhættuíþróttir, m.a. hefur hann skellt sér í sviffallhlífarstökki fram af 1000 metra hárri klettabrún í Slóveníu. Gunnar hefur hlaupið og hjólað mikið en sjaldnar synt og hafði aðeins lært að synda fjórum árum áður en hann mætti á landsmótið á Ísafirði 2016. Þar keppti hann í fjórum greinum, þar á meðal í þríþraut og lenti í öðru sæti í 100 metra skriðsundir í aldursflokki 70–74 ára.

Gunnar leggur áherslu á að þótt markmiðið sé alltaf að reyna að vinna í keppnum þá verði gleðin yfir því að taka þátt að vera í forgangi og mikilvægt að prófa margar greinar.

„Það skiptir öllu máli,“ segir hann. 

 

Miklu fleiri upplýsingar um Landsmót UMFÍ 50+ í Borgarnesi er að finna á síðu mótsins: Landsmót UMFÍ 50+

Hér að neðan má sjá fleiri myndir af Gunnari á mótinu í Borgarnesi.