Gunnhildur ráðin framkvæmdastjóri HSÞ
„Þetta verður áskorun því svæðið er geysistórt. En ég er forvitin og hlakka til,“ segir íþróttafræðingurinn Gunnhildur Hinriksdóttir. Hún tekur við starfi framkvæmdastjóra Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ) um áramótin af Evu Sól Pétursdóttur. Eva hefur gegnt starfinu síðan í febrúar á þessu ári. Hún er á leið í lýðháskólann Ry í Danmörku í janúar og verður fram á vor.
Gunnhildur er uppalin í Mývatnssveitinni, æfði þar og keppti lengi undir merkjum HSÞ. Rétt fyrir síðustu aldamót flutti hún suður og var lengi búsett ásamt fjölskyldu sinni á Laugarvatni. Maður Gunnhildar er Sigurbjörn Árni Arngrímssson, sem hefur verið skólameistari framhaldsskólans á Laugum síðastliðna þrjá vetur. Gunnhildur og börnin fluttu norður um síðustu áramót.
Gunnhildur segir þetta spennandi starf. „Svæði HSÞ er mun stærra nú en þegar ég flutti héðan. Það er áskorun fyrir mig. En á sama tíma höfum við úr miklu að moða og höfum mögulega fleiri keppendur en þegar ég var að keppa,“ segir hún.