Fara á efnissvæði
20. júlí 2018

Hafa mætt á Unglingalandsmót UMFÍ 12 ár í röð

Hjónin Falur Harðarson og Margrét Sturlaugsdóttir eiga tólf ára dóttur sem hefur mætt á hvert einasta Unglingalandsmót UMFÍ frá fyrsta ári. Hún stefnir á að bæta því þrettánda við um verslunarmannahelgina í Þorlákshöfn.

Þau Falur og Margrét segja einfalda ástæðu fyrir því að fjölskyldan hafi farið svona oft á Unglingalandsmót UMFÍ. Elsta dóttir þeirra tók þátt í mótinu þegar þegar hún var um 11 ára á Laugum í Reykjadal árið 2006. Það var fyrsta mótið sem fjölskyldan sótti og hafa þau ekki misst úr ár í allan þennan tíma.

Þau eiga þrjár dætur og eina fósturdóttur og hafa þær allar keppt á mótunum og ætíð keppt í körfubolta. Sú yngsta var ekki orðin ársgömul þegar hún fór með eldri systrum sínum og foreldrum á mótið.

 

Körfubolti númer 1, 2 og þrjú

Þau Fal og Margréti þarf vart að kynna fyrir íþróttafólki. Falur spilaði lengi körfubolta með Keflavík, íþrótta- og ungmennafélagi, er fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta og þjálfar nú karlalið Fjölnis í körfubolta. Margrét hefur jafnframt verið tengd körfuboltanum lengi. Hún spilaði með Keflavík og íslenska landsliðinu og hefur verið landsliðsþjálfari hjá yngri landsliðum KKÍ til margra ára. Nú þjálfar hún meistaraflokk kvenna í körfubolta hjá Breiðabliki.

Falur segir Unglingalandsmót UMFÍ fastan punkt í ferðasumri fjölskyldunnar. „Við ferðuðumst lítið innanlands hér áður fyrr. En núna er það orðinn fastur liður í tilverunni að leigja hjólhýsi og fara í viku ferðalag í kringum Landsmótið. Yfirleitt heimsækjum við nærumhverfi mótsstaða eftir mótin á hverju ári,“ segir hann.

Unglingalandsmót UMFÍ er fyrir ungmenni 11 til 18 ára. Elsta dóttirin í fjölskyldunni er orðin eldri. Þau Falur og Margrét ætla að halda áfram að mæta á mótin með hinar dæturnar. „Við stefnum auðvitað á að koma með okkar yngstu á 18 mót í röð,“ segir Falur.

 

Viðtalið við Fal er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Hægt er að nálgast blaðið allt hér að neðan:

Skinfaxi - 2. tbl. 109. árg 2018

 

Meiri upplýsingar um Unglingalandsmót UMFÍ á:

www.ulm.is

Facebook-síðu ULM