Hagræði að íþróttafélög sameinist stærri heildum

Kostir og hagræði fylgir því að sameina sjálfstæð íþróttafélög inn í stærri heildir, að sögn Sævars Péturssonar, framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags Akureyrar (KA). Hann var með erindi um sameiningu KA og Fimleikafélags Akureyrar á formannafundi Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) í síðustu viku.
Sævar lýsti því að sjálfboðaliðar félaga séu oft vanir því að gera hlutina á einn eða annan hátt og þurfi auk þess að leggja á sig ýmis verk, sem starfsfólk getur tekið að sér. Að því leyti létti það mjög verkin fyrir sjálfboðaliða íþróttafélaga að renna saman við stærri heild, eins og í tilviki fimleikafélagsins. Þar er auk þess aðgengi að bókhaldi og uppgjörum, yfirsýn yfir rekstur og fjárreiður, möguleika á nýjum styrkjum, félags- og fundaraðstöðu, þar er þekking á samningagerð og fleiri þáttum eins og aðgengi að fagráðum og ýmsum reglum.
Kostirnir eru því ótvíræðir, að sögn Sævars.
Skattamál og ferðakostnaður í brennidepli
Formannafundurinn var vel sóttur eða um þrjátíu gestir. Jóna Jónsdóttir, formaður ÍBA, setti fundinn og bauð gesti velkomna. Því næst hélt Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ erindi um Fyrirmyndafélag ÍSÍ og kosti þess að fara í slíkt ferli. Því næst hélt Sævar erindi um sameiningu Fimleikafélags Akureyrar við KA og því næst fjallaði Jón Steindór Árnason um skattamál íþróttahreyfingarinnar.
Jón Steindór reifaði skattamálin sem hafa verið í brennidepli upp á síðkastið. Hann benti á að starfshópur hafi verið skipaður, sem hafi það markmið að yfirfara leiðbeiningar skattsins og koma skilaboðum til yfirvalda varðandi næstu skref.
Í lok febrúar sendi hópurinn bréf til fjármála- og efnahagsráðherra þar sem óskað var eftir fundi til að ræða skattamál hreyfingarinnar. Markmiðið var að stuðla að skýrari ramma um starfsemi íþróttafélaga.
Í samtalinu verði m.a. haft til hliðsjónar ýmsar útfærslur sem þekktar eru erlendis frá, m.a. Danmörku, Hollandi, Belgíu, Frakklandi, Spáni og víðar.
Undir liðnum önnur mál steig handboltakappinn og íþróttapabbinn Heimir Örn Árnason í pontu til að ræða um ferðakostnað í íþróttahreyfingunni. Erindi hans vakti mikla athygli og ljóst að málefni ferðakostnaðar brennur á fólki.
Að lokum steig Helga Björg Ingvadóttir, framkvæmdastjóri ÍBA, í pontu og sagði frá sjóðum íþróttahreyfingarinnar. Hvatti hún fundargesti til að sækja um í sjóðunum áður en frestur rennur út og vanda til umsóknagerðarinnar.
Hér að neðan má sjá myndir frá fundinum.





