Halla forseti kemur á setningu Unglingalandsmóts

Halla Tómasdóttir var í gær sett í embætti forseta Íslands. Hún er sjöundi forseti lýðveldisins og önnur konan til að gegna því. Fyrstu dagar Höllu eru annasamir því í kvöld ætlar hún að sækja Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi. Hún verður viðstödd setningu mótsins og stefnir á að hitta forsvarsfólk UMFÍ og Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB. Heimsókn hennar á mótið verður annað embættisverk Höllu sem forseti Íslands.
Setning Unglingalandsmótsins fer fram á íþróttavellinum í Borgarnesi og hefst kl. 20:00 í kvöld. Ætlast er til þess að allir þátttakendur taki þátt í mótssetningunni og ganga þeir inn á mótssvæðið í skrúðgöngu með íþróttahéraði sínu í upphafi setningar.
Þátttakendur munu hittast í aðdraganda mótssetningar klukkan 19:30 á æfingasvæðinu við hliðina á fótboltavellinum.
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ flytur stutt ávarp og setur mótið. Forseti Íslands mund jafnframt halda ávarp. Landsmóts eldurinn verður tendraður og hátíðarfáni UMFÍ dreginn upp. Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson mun á eftir flytja nokkur lög.
Myndin af þeim Höllu Tómasdóttur og Birni Skúlasyni, eiginmanni hennar, eru birtar hér með góðfúslegu leyfi skrifstofu forseta.

