Halla fundar um félagasamtök í Norræna húsinu
„Það hefur verið erfiðara að fá fólk í félagsstörf á Norðurlöndunum eftir COVID. Við þurfum að laga okkur að þeim breyttu aðstæðum og stilla saman strengi,“ segir Halla Margrét Jónsdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ. Hún á sæti í NordUng, samtökum æskulýðsfélaga á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum.
Stjórn samtakanna fundar í þjónustumiðstöð UMFÍ um helgina og vinnur að stefnumótun og verkefnavinnu fyrir næsta ár. Fundinn situr auk Höllu Dagur Jónsson, sem líka situr í Ungmennaráði UMFÍ.
Halla segir margt að gera, enda ýmsar áskoranir í starfi samtaka eins og NordUngt. COVID hafi höggvið skarð í starf margra samtaka og hafi sum þeirra hætt störfum.
„Við vitum ekki alveg hvað hægt er að gera og þurfum að ræða það,“ segir Halla.
Á sunnudag standa samtökin fyrir viðburði í Norræna húsinu um norrænt samstarf. Þar verður Halla með erindi um UMFÍ auk þess að taka þátt í pallborði viðburðarins.
Ungt fólk frá öllum Norðurlöndunum sem statt er hér á landi og íslenskum ungmennum er boðið til að ræða framtíð norræns samstarfs og hvað það raunverulega þýðir að vera virkur í félagasamtökum, frá sjónarhóli ungs fólks.
Á viðburðinum mun hópur áhugasamra ungmenna úr ýmsum samtökum ræða lykilspurningar:
- Hvernig lítur framtíð norræns samstarfs og félagslífs út?
- Mun áhuginn á samstarfi og samtökum halda áfram að aukast, eða er hann á undanhaldi?
- Er norrænt samstarf raunverulega fyrir alla, og hverjir munu taka þátt í því í framtíðinni?
Það sem gerir viðburðinn enn skemmtilegri er að boðið verður upp á jólaglögg og piparkökur.
Viðburðurinn er ókeypis og öll velkominn! Viðburðurinn fer fram á ensku.
Viðburður er líka á Facebook og hægt að skoða hann þar: