Fara á efnissvæði
29. apríl 2022

Haukur er heiðursfélagi Íþróttabandalags Akureyrar

Haukur Valtýsson, fyrrverandi formaður UMFÍ, var gerður að heiðursfélaga Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) á 65. ársþingi bandalagsins í vikunni.

„Hann á þetta svo fyllilega skilið, segir Geir Kristinn Aðalsteinsson, sem var endurkjörinn formaður á þinginu. Hann tilkynnti útnefninguna á þinginu og rifjaði upp langan feril Hauks í ávarpi sínu.

Haukur hefur lengi starfað fyrir íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna, var kosinn í varastjórn ÍBA árið 2009 og sem varaformaður þar frá 2009-2016. Hann var jafnframt varaformaður UMFÍ frá 2011-2015 og formaður frá 2015 til ársins 2021.

Hann hefur auk þess setið í fjölmörgum nefndum fyrir UMFÍ, þar á meðal framkvæmdastjórn UMFÍ, landsmótsnefndum, unglingalandsmótnefndum, nefnd um inngöngu íþróttabandalaga, nefnd um skiptingu fjármagns frá Íslenskri getspá og getraunum, Lýðheilsunefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, mörgum forvarnarnefndum, móta- og viðburðarnefnd  og sat í stjórn Umhverfissjóðs UMFÍ, auk fjölmargra annarra nefndarstarfa.

Hann sat í stjórn Ungmennafélags Akureyrar (UFA) sem varaformaður 1999-2001 og síðan sem formaður 2001-2004 og einnig í byggingarnefnd Bogans og undirbúningsnefnd vegna byggingar nýrrar aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir sem endaði með að nýr fjölnotavöllur varð til á Þórssvæðinu. Haukur var varaformaður landsmótsnefndar 26. Landsmóts UMFÍ á Akureyri og formaður mótsnefndar Norðurlandamóts 20 ára og yngri í frjálsum íþróttum á Akureyri 2010.

Íþróttaferill Hauks hófst hjá HSÞ en þar keppti hann í glímu á árunum 1971-1976 og varð íslandsmeistari einu sinni.

Hann er mikil blakmaður og  hefur leikið um 1200 leiki í meistaraflokki með ÍMA, ÍS, og KA

Hann æfði með og keppti fyrir ÍMA 1973-1977 en ÍMA var þá eitt af aðildarfélögum ÍBA. Einnig æfði hann og keppti fyrir ÍS, íþróttafélag Stúdenta, 1977-1986 þar sem hann vann tvo bikarmeistaratitla og svo æfði hann og keppti með KA 1986-2006 þar sem hann vann tvo Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla. Að auki lék hann 27 landsleiki í blaki.

Að auki var Haukur þjálfari kvennaliðs ÍMA ásamt Björgólfi Jóhannssyni  1975-1977 og varð liðið Íslandsmeistarar 1977. Síðar var hann þjálfari kvennaliðs ÍS 1984-1986, en þær urðu Íslandsmeistarar og bikarmeistarar 1985 og 1986.

Árin 1986-1988 og einnig 1995-1997 þjálfaði hann karlalið KA auk þess sem hann hefur þjálfað nokkur öldungalið í blaki og keppt mikið á öldungamótum sjálfur.

Hauki var veitt gullmerki UMFÍ á síðasta þingi sambandsins sem var haldið á Húsavík í október 2021 og einnig var honum veitt gullmerki ÍSÍ og heiðursskjöldur UMSK við sama tilefni.

 

Gott þing

Geir sagði þing ÍBA hafa að öðru leyti gengið mjög vel enda lágu engin álitamál fyrir því. Eins og áður sagði var hann endurkjörinn sem formaður. Endurnýjun varð á stjórn ÍBA en þrír fóru út og jafn margir komu inn.