Fara á efnissvæði
07. september 2021

Haukur gefur ekki kost á sér áfram sem formaður UMFÍ

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs í stjórn UMFÍ. Jóhann Steinar Ingimundarson, varaformaður UMFÍ, hefur þegar gefið kost á sér í formannssætið í stað Hauks. 

Kosið verður um nýjan formann og stjórn UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ sem haldið verður á Húsavík dagana 15. – 17. október næstkomandi.

Haukur hefur setið í stjórn UMFÍ síðastliðin 10 ár, þar af sem formaður síðan á sambandsþingi UMFÍ í sex ár eða frá árinu 2015 þegar hann tók við af Helgu Guðrúnu Guðjónsdóttur.

 

Allir bjóða sig fram

Stjórn og varastjórn UMFÍ gefa öll stjórn á sér til endurkjörs. Þó með nokkrum breytingum. Gissur Jónsson, Guðmundur Sigurbergsson, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Þ. Gestsson og Ragnheiður Högnadóttir gefa öll kost á sér í aðalstjórn, Sigurður Óskar Jónsson gefur einn kost á sér til aðal- og varastjórnar. Til setu í varastjórn UMFÍ gefa kost á sér Lárus B. Lárusson, Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir og Hallbera Eiríksdóttir.

Þeir sem vilja geta enn boðið sig fram til stjórnar UMFÍ. Tilkynning um framboð til stjórnar eða varastjórnar UMFÍ skal lögum samkvæmt berast skriflega til kjörstjórnar eigi síðar en tíu dögum fyrir þing. Einstaklingur sem býður sig fram til formanns getur jafnframt boðið sig fram til stjórnar og/eða varastjórnar á þinginu kjósi hann svo. Sama á við um einstakling sem býður sig fram til stjórnar og getur hann þá á þinginu boðið sig fram til varastjórnar.

Við kosningu í stjórn UMFÍ skal leitast við að í kjöri séu fulltrúar frá hverju kjördæmi. Náist það markmið ekki eftir að framboðsfrestur rennur út, er kjörnefnd heimilt að framlengja framboðsfrestinn um allt að fimm daga. Heimilt er líka að bera fram tillögu um fleiri einstaklinga en einn úr hverju kjördæmi.

Kjörgengir til stjórnar og varastjórnar UMFÍ eru allir skattskyldir ungmennafélagar.

Tilkynna skal kjörnefnd um framboð til formanns, stjórnar og/eða varastjórnar á netfangið umfi@umfi.is eigi síðar en 30. september nk. Nánari upplýsingar veitir líka Einar Kristján Jónsson, formaður kjörnefndar, í síma 842 5800.