Haukur Valtýsson: Búumst við því að veiran trufli okkur fram á næsta ár
„COVID-faraldurinn hefur truflað allt íþrótta- og æskulýðsstarf á árinu. Þessi veira er óútreiknanleg. Við getum alveg eins ætlað okkur að stöðva vindinn eins og að eyða henni. En við þurfum því miður að búast við því að þessi veirufjári geti truflað líf okkar fram á næsta ár,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ.
Hann hélt ávarp á sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór í dag. Fyrirkomulag fundarins endurspeglaði krefjandi aðstæður og samkomutakmarkanir af völdum COVID-faraldursins. Sambandsráðsfundur UMFÍ er haldinn annað hvert ár og er hann æðsta vald í málefnum ungmennafélagshreyfingarinnar á milli sambandsþinga, sem líka eru haldin annað hvert ár.
Til stóð að fundurinn færi fram á Hótel Geysi í Haukadal og myndi standa í tvo daga enda oft mikið rætt um hreyfinguna á fundunum. Að öllu óbreyttu hefði mátt búast við fjölda fundargesta því UMFÍ stækkaði gífurlega á þingi á síðasta ári með aðild þriggja stórra íþróttabandalaga að ungmennafélagshreyfingunni. Á þinginu fengu þá loks aðild að UMFÍ Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) og Íþróttabandalag Akraness (ÍA).
COVID-faraldurinn hagaði hins vegar málum á þann veg að öllum ferðalögum var slegið á frest og fundur UMFÍ haldinn í fyrsta sinn með rafrænum hætti. Sambandsráðsfundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaðinum Microsoft Teams. Á hann mættu um fimmtíu þingfulltrúar sambandsaðila UMFÍ, stjórn UMFÍ og starfsfólk.
Samstarf mikilvægt í faraldrinum
Dagskrá fundar var að mestu með hefðbundnu sniði með ávarpi formanns, skýrslu stjórnar og umræðum um ársreikninga ásamt kosningum.
Hauki var tíðrætt um mikilvægi samstarfs og samvinnu í ávarpi sínu. Hann sagði ungmennafélagshreyfinguna sterkari nú en áður með þremur íþróttabandalögum og styðji þau hvert við annað. Þá sagði hann samvinnu hafa aukist. Það sé kostur því það bæti starfið.
En Haukur rifjaði jafnframt upp að mikið hafi staðið til hjá UMFÍ á þessu ári, sem að nær öllu leyti hafi verið frestað fram á næsta ár.
„Árið 2020 stefndi í að verða stórt mótaár. En faraldurinn olli því að við urðum að fresta öllum mótum um ár og taka okkur allt annað fyrir hendur en okkur hafði órað fyrir. Ég þakka öllum þeim sem sátu í framkvæmdanefndum mótanna fyrir ábyrgðina sem þau tóku á sig,“ sagði hann og rifjaði upp að síðan COVID-faraldurinn fór á skrið í byrjun árs hafi margt breyst.
Allir þurfa að breyta háttum
„Eins og hendi væri veifað höfum við öll þurft að breyta háttum okkar og vinnulagi. Samfélagið er ekki eins og það var fyrir ári. Atvinnuleysi hefur aukist. Margir berjast í bökkum. Það eykur hættuna á brottfalli barna og unglinga úr skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi,“ sagði Haukur og benti á að framundan í starfi UMFÍ er stefnumótun þar sem málum verði fylgt eftir.
„Við erum að sjálfsögðu með mörg verkefni á ýmsum stigum til að sporna við þeirri neikvæðu þróun sem hætta er á við sjóndeildarhring. Óháð því hvernig faraldurinn þróast þá stefnum við að því að fara um allt landið, vinna náið með sambandsaðilum og Ungmennaráði UMFÍ. Stefnan miðar að því að styðja við starf íþrótta- og ungmennafélaga í heimahéruðum, hún horfir til umhverfismála, félagslegra þátta og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. En ofar öðru munum við huga að eflingu lýðheilsu landsmanna, ekki síst hvers og eins. Ég hvet sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélög um allt land til að vinna að því að auka hreyfingu fólks. Það hefur ekki aðeins áhrif á þá sem eru í okkar félögum heldur samfélagið allt. Við eigum að einhenda okkur markvisst í að sinna af meiri krafti fólki sem stendur utan afreksíþrótta, þeim sem stunda óhefðbundnar íþróttir og að auka félagsstarf okkar. “
Ávarp Hauks í heild sinni:
Setning 43.sambandsráðsfundar UMFÍ, 29. október 2020.
Haldinn með fjarfundarbúnaði
Góðir fundarmenn, heiðursfélagar UMFÍ, stjórn UMFÍ og starfsfólk.
Ég býð ykkur öll velkomin til 43.sambandsráðsfundar UMFÍ sem að þessu sinni fer fram með mjög óvenjulegum hætti.
Nú er um ár liðið frá síðasta þingi okkar og hefur sá tími allur verið um margt afar óvenjulegur. Tímamótaskref voru stigin í sögu UMFÍ á síðasta þingi þegar þrjú íþróttabandalög bættust við í raðir UMFÍ. Það er mikið framfaraskref fyrir íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna.
Þetta ár sem liðið er frá aðild íþróttabandalaganna að UMFÍ hefur verið afar gott hvað samstarf snertir. Samvinna innan íþróttahreyfingarinnar hefur aukist til muna – og það er gott. Því við stefnum öll að sama marki. Að gera gott starf enn betra – samfélaginu öllu til góða.
Þessi samhugur okkar og samstarf hefur verið sérstaklega mikilvægur nú.
Því þetta ár hefur verið skrýtið.
Frá í febrúar hefur starf okkar allra verið mjög krefjandi. Við höfum eins og nær allir orðið að fresta viðburðum og orðið fyrir fjárhagslegum skakkaföllum. Og eins og hendi væri veifað höfum við öll þurft að breyta háttum okkar og vinnulagi. Samfélagið er ekki eins og það var fyrir ári.
Covid-faraldurinn hefur truflað allt íþrótta- og æskulýðsstarf á árinu. Við getum alveg eins ætlað okkur að stöðva vindinn eins og að eyða henni. En við þurfum því miður að búast við því að þessi veirufjári geti truflað líf okkar fram á næsta ár.
Við erum samhent og þess vegna þykir mér magnað að sjá stjórnendur og starfsfólks í íþrótta- og ungmennafélagshreyfingunni takast á við afleiðingar faraldursins af æðruleysi. Sama hvað bjátað hefur á.
Íþróttafólk og aðrir í hreyfingunni hafa tekið á málum á ábyrgan hátt, fylgt fyrirmælum sóttvarnayfirvalda. En á sama tíma hugsað í lausnum og fært æfingar yfir á annað og nýtt plan. Það bætir þjónustuna og þjónar iðkendum. Þetta er rétta hugsunin.
Í ungmenna- og íþróttahreyfingunni höfum við snúið bökum saman og unnið sem einn í baráttunni gegn veirunni. Við ætlum að vinna. Það gerum við saman!
Það er hinn sanni ungmennafélagsandi. Í honum felst að takast á við erfiðleika af æðruleysi – þar eru allir með – því við vinnum öll saman.
Ég vil hér staldra við og þakka stjórnvöldum stuðninginn í þeim hremmingum sem íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin hefur glímt við. Sérstaklega þakka ég mennta- og menningarmálaráðherra fyrir atorku og hvatningu. Stuðningurinn er mikilvægur fyrir starfsemi okkar félaga.
Árið 2020 stefndi í að verða stórt mótaár. En faraldurinn olli því að við urðum að fresta öllum mótum um ár og taka okkur allt annað fyrir hendur en okkur hafði órað fyrir. Ég þakka öllum þeim sem sátu í framkvæmdanefndum mótanna fyrir ábyrgðina sem þau tóku á sig.
Ég hvet jafnframt framkvæmdanefndir til að vinna markvisst að því að undirbúa mótin á næsta ári. Okkur veitir svo sannarlega ekki af því að koma saman eftir þetta ár og taka á því á skemmtilegum mótum.
Við megum ekki gleyma því að nú sem aldrei fyrr er nauðsyn að vernda barna- og unglingastarf félaganna.
Atvinnuleysi hefur aukist. Margir berjast í bökkum. Það eykur hættuna á brottfalli barna og unglinga úr skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Mikilvægt er að við fylgjumst með þeirri þróun. Sýnt hefur verið fram á að þátttaka í slíku starfi er jákvæð.
Við erum að sjálfsögðu með mörg verkefni á ýmsum stigum til að sporna við þeirri neikvæðu þróun sem hætta er á sé við sjóndeildarhring. En um leið styrkja þá sem þegar eru í skipulögðu starfi. Það gerum við saman innan UMFÍ.
Á meðal samstarfsverkefna okkar sem ég vil vekja athygli á er „Allir með‟ í Reykjanesbæ. Markmið verkefnisins er að hvetja fólk til þáttöku í skipulögðu starfi félaga. Einnig hefur Ungmennasamband Kjalarnesþings, UMSK, unnið með félögum í Kópavogi við að virkja eldri borgara til auka hreyfingu sína og um leið vellíðan hópsins.
Nokkur mál í þessa veru eru í farvatninu.
Nú stendur fyrir dyrum vinna við stefnumótun UMFÍ. Óháð því hvernig faraldurinn þróast þá stefnum við að því að fara um allt landið, vinna náið með sambandsaðilum og Ungmennaráði UMFÍ. Stefnan miðar að því að styðja við starf íþrótta- og ungmennafélaga í heimahéruðum, hún horfir til umhverfismála, félagslegra þátta og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. En ofar öðru munum við huga að eflingu lýðheilsu landsmanna, ekki síst hvers og eins.
Ég hvet sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélög um allt land til að vinna að því að auka hreyfingu fólks. Það hefur ekki aðeins áhrif á þá sem eru í okkar félögum heldur samfélagið allt. Við eigum að einhenda okkur markvisst í að sinna af meiri krafti fólki sem stendur utan afreksíþrótta, þeim sem stunda óhefðbundnar íþróttir og að auka félagsstarf okkar.
Í samræmi við aðild þriggja íþróttabandalaga að UMFÍ fyrir ári er nauðsynlegt að fara í viðræður um endurskoðun á skiptingu lottofjármagns. Þær viðræður eru nú þegar í gangi. Við þurfum líka að fara í endurskoðun á stærð íþróttahéraða. Það verður mikilvæg umræða svo íþróttahreyfingin festist ekki í sama farinu heldur haldi áfram að þróast.
Ég vil nú að lokum benda á minnisblað frá okkur í stjórn UMFÍ. Við sendum ykkur öllum – sambandsaðilum – eintak af því fyrir sambandsráðsfundinn.
Á blaðsíðum 13 og 14 í minnisblaðinu er fjallað um aðgerðir sem hugsaðar eru sem sókn með nýjum áherslum í samvinnu yfirvalda og ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar. Þetta eru áhersluatriði sem við stefnum að því að vinna að. Við erum tilbúin að vinna með stjórnvöldum að því að gera þau að veruleika og óskum eftir að vera kölluð að borðinu með þeim um hvaðeina sem snertir okkar sambandsaðila,félög og einstaklinga – þ.e.a.s. nær allt íþróttalífið á Íslandi.
Við horfum samstíga og horfum jákvæð fram á veginn þrátt fyrir allt. En pössum okkur á því að tapa ekki gleðinni í faraldrinum.
Í starfsmannamálum hafa orðið þær breytingar að Sabína Steinunn Halldórsdóttir landsfulltrúi hætti störfum nú í ágúst og vil ég hér, fyrir hönd UMFÍ færa henni bestu þakkir fyrir samstarfið og óska henni alls hins besta á nýjum vettvangi.
Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki okkar og stjórnarfólki vel unnin störf og sérstaklega Auði Ingu framkvæmdastjóra og hennar starfsliði. Mikið álag hefur verið á þeim í faraldrinum og hafa þau lagt mikið á sig til að upplýsa sambandsaðila UMFÍ og íþróttahreyfinguna um þróun mála.
Munum eftir ungmennafélagsandanum og höfum hann leiðarljósið í lífi okkar.
Gangi ykkur vel í öllum ykkar störfum.
Ég segi 43.sambandsráðsfund UMFÍ settan.