Fara á efnissvæði
03. ágúst 2024

Hefur stýrt mótum UMFÍ í 20 ár

„Framkvæmd Unglingalandsmóts UMFÍ hefur verið framúrskarandi og samvinna allra sem að því koma með eindæmum góð,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. 

Jóhann hélt ávarp í mótttöku með forsetahjónunum, sambandsaðilum UMFÍ, heiðursfélögum og fleirum frá sveitarfélaginu Borgarbyggð. Hann benti á að óneitanlega hafi UMFÍ og mótshaldarar staðið frammi fyrir miklum áskorunum í Borgarnesi því rigning sett mark sitt á tjaldsvæðið. Fólk hafi lagst á eitt að leysa úr öllum vanda og yfirstíga hindranir á vegferðinni. 

„Það hefur svo sannarlega tekist að mestu leyti og endurspeglar þann ungmennafélagsanda sem við leitum eftir. Við sjáum það á brosum barna og ungmenna, foreldrum og forráðafólki að mótsgestum líður vel og öll skemmta sér saman með þátttöku og lýðheilsu að leiðarljósi,“ sagði Jóhann Steinar. 

Hefð er fyrir því að veita tvennt til minningar um mótin. Annars vegar Sigurðarbikarinn, sem afhentur er í minningu Sigurðar Geirdal, fyrrverandi framkvæmdarstjóra UMFÍ, og þakkarskjöld, sem er til merkis um góða framkvæmd við mótið. 

Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, tók við þakkarskildinum og Guðrún Hildur Þórðardóttir, sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), tók við Sigurðarbikarnum, sem er til varðveislu í eitt ár. 

Undir lok ávarpsins bað Jóhann Steinar Ómar Braga Stefánsson, framkvæmdastjóra móta UMFÍ, um að taka við þakklætisvotti. Ómar hefur skipulagt mót UMFÍ í 20 ár. Fyrsta Unglingalandsmótið í hans umsjá var árið 2004. Þá var það á Sauðárkróki. Landsmót UMFÍ var haldið þar líka sama ár.