Fara á efnissvæði
09. október 2021

Helga Guðrún, Engilbert og Valdimar sæmd heiðursmerki ÍSÍ

„Mér þykir afar vænt um þetta og er mjög þakklát. Þetta er viðurkenning fyrir störf okkar allra hjá UMFÍ,‟ segir Helga Guðrún Guðjónsdóttir, fyrrverandi formaður UMFÍ. Hún var á Íþróttaþingi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) í dag sæmd Heiðurskrossi ÍSÍ, sem er æðsta heiðursmerki ÍSÍ.

Engilbert Olgeirsson (HSK) og Valdimar Leó Friðriksson (UMSK) voru á sama tíma heiðraðir með heiðursmerki ÍSÍ eins og Helga Guðrún.

Helga Guðrún var heiðruð fyrir störf sín fyrir UMFÍ og ungmennafélagshreyfinguna. Hún er fyrsta konan til að gegna formannsembætti UMFÍ og var það sérstaklega tekið fram við afhendingu heiðursmerkisins.

 

Með æðsta heiðursmerki UMFÍ

Helga var í stjórn UMFÍ í 18 ár, kom fyrst inn í stjórnin árið 1997 og sat í varastjórn fyrsta tímabilið. Hún var meðstjórnandi frá árinu 1999 til 2001 og varaformaður frá 2001-2007. Hún var kjörinn formaður UMFÍ fyrst kvenna 2007, sama ár og UMFÍ fagnaði aldarafmæli, og gegndi því embætti í átta ár eða til ársins 2015.

Þess má geta að Helga Guðrún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar 2016 fyrir störf á vettvangi íþrótta- og æskulýðsstarfs. Á Sambandsþingi UMFÍ árið 2019 var hún jafnframt sæmd heiðurskrossi ungmennafélagshreyfingarinnar og gerð að heiðursfélaga. Heiðurskross UMFÍ er er æðsta heiðursmerki ungmennafélagshreyfingarinnar.

 

Finnur til auðmýktar

Helga Guðrún segir það einstakt að ÍSÍ skuli heiðra ungmennafélaga.

„Ég hef setið í nefndum ÍSÍ, en það hef ég alltaf gert fyrir hönd UMFÍ,‟ svarar hún og segist finna til auðmýktar og ánægju með viðurkenninguna.

Myndin með umfjölluninni var tekin á þingi ÍSÍ í dag. Á henni eru með Helgu þeir Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Andri Stefánsson, starfandi framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Helga Guðrún var jafnframt þingforseti hjá KSÍ á dögunum þar sem Vanda Sigurgeirsdóttir tók við formannsembættinu fyrst kvenna í sögu KSÍ og var myndin af þeim hér að neðan tekin af því tilefni.

Hér má lesa viðtal við Helgu Guðrún sem birtist í Skinfaxa, tímariti UMFÍ, eftir að hún var heiðruð fyrir störf sín hjá UMFÍ.

Lesa viðtal í Skinfaxa