Fara á efnissvæði
31. maí 2019

Helgi Gunnarsson lætur af störfum

Helgi Gunnarsson, fjármálastjóri UMFÍ, lætur formlega af störfum í dag en hann fagnar 67 ára aldri í ágúst. Í tilefni dagsins bauð samstarfsfólk Helga upp á kaffi og kruðerí í þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík. Helgi mun vinna óformlega fyrir UMFÍ fram eftir sumri enda er það annamesti tíminn hjá UMFÍ. Í lok júní verður Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað og Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. 

Starfsfólk UMFÍ í þjónustumiðstöðinni sat boðið til heiðurs Helga en þangað komu jafnframt fjölskylda hans, Jón M. Ívarsson, sem skrifað hefur sögu UMFÍ, Guðmundur Sigurbergsson, sem situr í stjórn UMFÍ og þau Anna Möller, Helga Dagný Árnadóttir og Hjörtur Ágústsson, sem voru hjá Evrópu unga fólksins og með skrifstofu í þjónustumiðstöð UMFÍ. 

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ sendi Helga kveðju og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhenti honum gjöf frá samstarfsfólki.

Jón M. Ívarsson flutti tölu um Helga og kom mörgum á óvart að hann, eins og margir reyndar, hefur verið nátengdur ungmennafélagshreyfingunni frá unga aldri. Helgi hefur í það minnsta í tvígang unnið hjá UMFÍ, nú síðast samfleytt frá árinu 2005 en jafnframt verið framkvæmdastjóri UMSK til skamms tíma og gegnt fleiri stöðum innan hreyfingarinnar. Eins og flestir innan UMFÍ vita hefur Helgi ætíð verið málsvari góðra fundarskapa. Hann er einn af upphafsmönnum Félagsmálaskóla UMFÍ og hefur margsinnis verið fenginn til að stýra fundum og þingum UMFÍ, sem hann gerir af festu. 

UMFÍ þakkar Helga fyrir vel um störf.

 

Hér má sjá myndir frá kveðjuhófi til heiðurs Helga Gunnarssyni