Fara á efnissvæði
17. nóvember 2020

Helgi hjá ÍBA: Dregið hefur úr skráningum iðkenda

„Ég fagna því að íþróttakennsla er að hefjast á ný. Það er mjög jákvætt að börn á leik- og grunnskólaaldri getið farið að æfa á ný. En ég hefði viljað sjá nemendur í framhaldsskólum geta byrjað að æfa aftur og hef áhyggjur af því að brottfall geti aukist, sérstaklega í þeim aldurshópi,“ segir Helgi Rúnar Bragason, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA).

Heilbrigðisráherra féllst á föstudag í síðustu viku á tillögur sóttvarnalæknis, m.a. afléttingu á hluta af hömlum á íþróttastarfi. Samkvæmt tillögunum og ákvörðun ráðherra geta börn á leik- og grunnskólaaldri farið að æfa íþróttir bæði inni og úti á ný miðvikudaginn 18. nóvember.

 

 

Helgi segist hafa kosið að allt íþróttastarf geti hafist á ný. En af því verður ekki. Hann segir COVID-faraldurinn hafa sett skarð í allt íþróttastarf, bæði í einstaklingsgreinum og hópagreinum og geti afleiðingarnar orðið talsverðar þegar fram í sækir.

„Mín tilfinning er að við verðum að reyna að verja íþróttir. En á sama tíma er erfitt að reyna að ákveða hvað er rétt og rangt. Í fimleikafélaginu hjá okkur eru langstærsti hluti iðkenda stúlkur. Við höfum tekið eftir að mjög hefur dregið úr skráningum í fimleikum hjá iðkendum á þessari haustönn. En hvort það er vegna COVID-faraldurins eða álags í skóla vitum við ekki. Afleiðingarnar sjást ekki fyrr en eftir hálft ár eða jafnvel ár,‟ segir Helgi.

 

Merki um að iðkendur séu að hætta

Áhyggjur Helga Rúnars kallast á við þær sem Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), viðraði í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þar segir hann greinileg merki um að iðkendur séu að hætta að stunda íþróttir eftir því sem líður á faraldurinn, sérstaklega í greinum eins og fimleikum og einstaklingsgreinum.

„Það sem við höfum áhyggjur af er að við verðum vör við brottfall úr skipulögðu íþróttastarfi. Vandinn er tvíþættur. Það er annars vegar a foreldrar eru að borga æfingagjöld til íþróttafélaganna. Þegar það lokar þá eru þau ekki að geta veitt þá þjónustu sem borgað er fyrir, eðlilega.  Út frá rekstrarlegu sjónarmiðum þá höfum við miklar áhyggjur af því að næsta önn verði erfið ef við þurfum að halda áfram að opna og loka eins og verið hefur. Svo er hitt það sem er erfiðara, og við höfum enn meiri áhyggjur af er að þegar brottfallið byrjar þá flosni krakkarnir frekar upp úr þessu, sérstaklega þeir sem eru á viðkvæma aldrinum, sem eru líklegri til að vilja hætta, nenna þessu ekki lengur, fara að gera eitthvað annað og finnst það bara skemmtilegra en að vera dröslað á æfingar. Við erum farin að sjá merki um þetta í nokkrum íþróttagreinum sérstaklega,‟ sagði Ingvar.

 

Lesa nýjasta tölublað Skinfaxa