Helgi hjá Leikni: Lýst vel á að öll ungmenni geti byrjað að æfa á ný
„Mér lýst mjög vel á að öll ungmenni geti byrjað að æfa aftur. Þær æfingar sem hafa farið fram eru í gangi. En svo erum við lítið félag og þurfum aðeins að senda skilaboð á iðkendur til að segja þeim tíðindin,“ segir Helgi Óttarr Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Leiknis í Reykjavík.
Eins og fram kom fyrr í dag bendir allt til þess að slakað verði á samkomutakmörkunum miðvikudaginn 13. janúar næstkomandi. Íþróttaæfingar og annað starf barna og fullorðinna verður heimilað að nýju með og án snertingar að uppfylltum skilyrðum og leyft að keppa í íþróttum án áhorfenda.
Félagssvæði Leiknis er í Breiðholti og býður félagið á knattspyrnu, blak og skák. Meistaraflokki Leiknis í knattspyrnu hefur gengið vel og liðið komið í Pepsideildina í annað sinn í sögu félagsins.
Iðkendur Leiknir eru 250 í Breiðholti og segir Helgi það gott því auðvelt sé að koma skilaboðum áleiðis til iðkenda, bæði þegar samkomuatakmarkanir voru settar á og líka nú þegar slakað verður á þeim og íþróttastarf og keppni fullorðinna leyfð á ný.
Helstu breytingar á samkomutakmörkunum
- Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
- Íþróttaæfingar: Íþróttaæfingar barna og fullorðinna verða heimilar með og án snertingar innan- og utandyra. Ekki mega vera fleiri en 50 manns í rými.
- Íþróttakeppnir: Íþróttakeppnir barna og fullorðinna verða heimilar en án áhorfenda.
- Skíðasvæði: Skíðasvæðum verður heimilt að hafa opið með takmörkunum samkvæmt reglu 4 í útgefnum reglum skíðasvæðanna í landinu. Í skíðalyftum skal tryggt að þeir sem eru einir á ferð þurfi ekki að deila lyftustól með öðrum, halda skal tveggja metra nálægðarmörk og sömu reglur gilda um grímunotkun og annars staðar.
- Verslanir: Gerð er sú breyting að í stað núgildandi reglu sem heimilar 5 viðskiptavini á hverja 10m² er gert ráð fyrir einum viðskiptavini á hverja 4m² en þó ekki fleiri en 100 viðskiptavinum í rými að hámarki.
- Heilsu- og líkamsræktarstöðvar: Starfsemi verður heimil með ströngum skilyrðum. Fjöldi gesta má að hámarki vera helmingur þess sem kveðið er á um í starfsleyfi, eða helmingur þess sem búningsaðstaða gerir ráð fyrir ef gestafjölda er ekki getið í starfsleyfi. Einungis er leyfilegt að halda skipulagða hóptíma þar sem hámarksfjöldi í hverjum hópi eru 20 manns og gestir í hvern tíma skráðir. Búningsklefar skulu vera lokaðir. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda. Sóttvarnalæknir mun setja fram ýtarlegar leiðbeiningar um sóttvarnir á heilsu- og líkamsræktarstöðvum.
- Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir: Á sviði mega vera allt að 50 manns á æfingum og sýningum. Andlitsgrímur skulu notaðar eins og kostur er og tveggja metra nálægðartakmörkun virt eftir föngum. Sitjandi gestir í sal mega vera allt að 100 fullorðnir og 100 börn fædd 2005 og síðar. Gestir skulu sitja í sætum sem skráð eru á nafn og fullorðnir eiga að bera grímu.
Leiknir R er aðildarfélag Íþróttabandalags Reykjavíkur, eins af 28 sambandsaðilum UMFÍ.
Sjá einnig: Íþróttastarf barna og fullorðinna fer í gang að nýju