Fara á efnissvæði
22. júní 2020

Hildur Karen: Gott að undirbúa sig vel fyrir ársþing

„Þetta var mjög gott þing og allt gekk eins og í sögu,“ segir Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness (ÍA) um 76. ársþing bandalagsins sem haldið var í síðustu viku. Hildur segir galdurinn að halda gott þing að undirbúa það vel og hafa með sér gott fólk.

Hún sendi sem dæmi þingfulltrúum ársskýrslu og ársreikning bandalagsins á rafrænu formi nokkrum dögum fyrir þing og fór yfir dagskrá þingsins með þingforseta, sem stýrði þinginu.

„Mér hefur líka fundist gott að keyra dagskrána áfram með vel undirbúinni glærukynningu. Það heldur dagskránni í föstum skorðum og verður til þess að ekkert gleymist. Ég undirbý mig einnig undir spurningar sem geta vaknað á þinginu þannig að þingfulltrúar fái strax svör við spurningum sínum. Annars er svona þing yfirleitt átakalaust enda starfsemi ÍA í miklum blóma“ segir Hildur Karen.

 

ÍA er einn af nýjustu sambandsaðilum UMFÍ en aðild bandalagsins var samþykkt á sambandsþingi UMFÍ í október í fyrra. Töluverðar breytingar urðu við inngönguna en á sama tíma bættust við ÍBR og ÍBA.

Auður Inga Þorsteindóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, var gestur þingsins að þessu sinni og bauð hún ÍA velkomið í UMFÍ. Tók hún það sérstaklega fram að aðild ÍA verði bæði bandalaginu og UMFÍ til framdráttar. Hún ræddi jafnfram tum mikilvægi íþróttastarfs fyrir samfélagið og þá einstaklinga sem taka þátt í skipulegu íþróttastarfi.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, bar jafnframt kveðju bæjarstjórnar og ræddi um samstarf íþróttahreyfingarinnar og sveitarfélagsins.

 

Breytt stjórn og nýr framkvæmdastjóri

Á þinginu varð töluverð breyting á stjórn ÍA. Af sjö stjórnarfólki komu fjórir nýir inn á öllum aldri. Þau Dýrfinna Torfadóttir, Tjörvi Guðjónsson og Svava Huld Þórðardóttir gáfu ekki kost á sér áfram til stjórnarsetu auk þess sem Hallbera Jóhannesdóttir gaf ekki kost á sér í varastjórn. Í stað þeirra komu í stjórnina Gísli Karlsson, Hrönn Ríkharðsdóttir og Erla Ösp Lárusdóttir. Ný í varastjórn eru Líf Lárusdóttir og Trausti Gylfason.

Frekari breytingar eru fyrirhugaðar hjá ÍA en Hildur Karen ætlar að hætta í haust eftir rúmlega fjögurra ára starf. Starfið var auglýst í dagblöðum um helgina. Hægt er að kynna sér starf framkvæmdastjóra ÍA hér að neðan en umsóknarfrestur til að sækja um starfið er til 29. júní.

Nánari upplýsingar um starfið er á finna á Alfred.is.

Frekari fréttir og myndir af þingi ÍA.