Hjördís Gunnlaugsdóttir: Alltaf jafn mikið ævintýri að vera sjálfboðaliði
Án fjölda sjálfboðaliða væri nær ómögulegt að halda flesta stærri viðburði UMFÍ. Sjálfboðaliðar sinna fjölbreyttum verkefnum og ganga í öll verk, stór og smá, með bros á vör. Hjördís Gunnlaugsdóttir er einn þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða hér á landi sem vinnur á bakvið tjöldin og gerir íþróttafélögum og ýmsum félagasamtökum kleift að halda fjölmenn íþróttamót og skipuleggja stærri viðburði.
Hún segist nánast alin upp við að það þyki sjálfsagt að vinna og hjálpa til við hina ýmsa viðburði og taka þátt í fjölbreyttu félagsmálastússi.
„Foreldrar mínar voru virkir á þessum vettvangi en hjá mér byrjaði þetta í alvöru með börnunum mínum. Ég á þrjú börn sem tóku öll þátt, mismikið þó, í íþróttum þegar þau voru börn og unglingar. Þegar aðstoða þurfti við mót og ferðalög fannst mér alveg sjálfsagt að aðstoða auk þess sem þetta starf var einnig mjög skemmtilegt,“ segir hún.
Eitt barna Hjördísar var í Skátafélaginu Skjöldungum þar sem hún sat í stjórn í þrjú ár og tvö barna hennar æfðu frjálsar íþróttir en þar þótti sjálfsagt að aðstoða við þau mót sem félagið hélt að hennar sögn.
„Auk þess var ég bekkjarfulltrúi á einhverjum tímapunkti fyrir öll börnin mín í grunnskóla þar sem við stóðum fyrir ýmsum skemmtunum og ferðum með krökkum og foreldrum.“
Vann mikið fyrir Þrótt
Helsta framlag Hjördísar til sjálfboðaliðastarfa hefur þú verið í gegnum íþróttafélagið Þrótt í Reykjavík þar sem börnin hennar æfðu fótbolta. „Þar var ég í flokksráði í mörg ár og hef svo sannarlega grillað ófáar pylsurnar og hamborgarana, staðið sjoppuvaktir á mótum og gert ýmislegt með krökkunum utan boltans til að þétta samheldnina. Einnig fylgir það þessu starfi að vera fararstjóri á fótboltamótum sem er alltaf mikið ævintýri.“
Hjördís sat einnig í stjórn Rey Cup sem er stærsta knattspyrnumót landsins fyrir 13–16 ára stelpur og stráka. „Rey Cup er alþjóðlegt knattspyrnumót sem er haldið á félagssvæði Þróttar en það sækja bæði innlend og erlend lið. Þar þurftum við að sjá um gistingu, mat
og afþreyingu fyrir rétt um 1.000 ungmenni en þetta er mikil vinna sem tugir foreldra í félaginu leggja á sig til að mótið gangi sem best upp.“
Safnaði tonnum af rusli Undanfarin ár hafa þó verið rólegri hjá Hjördísi enda krakkarnir vaxnir úr grasi. Því fylgir þó ekki að hún hafi gefið sjálfboðaliðastarfið upp á bátinn. „Í fyrrasumar fór ég til dæmis með félagasamtökunum Hreinni Hornstrandir til Bolungavíkur á Ströndum yfir eina helgi en samtökin halda utan um ruslahreinsun á Hornströndum á hverju ári. Þar söfnuðum við nokkrum tonnum af rusli, svo sem miklu magni af plasti, netatrossum, ýmsum veiðarfærum og öðru drasli sem rekur þar á fjörur. Þetta var mikið ævintýri og skemmtilegt og vona ég að ég fái að taka þátt í svona ferð aftur.“
Í vor bauð hún sig fram til að starfa við Fossavatnsgönguna en um er að ræða skíðagöngu sem haldin er hvert ár á Ísafirði í kringum 1. maí.
„Mikill fjöldi tekur að jafnaði þátt í göngunni en þar var ég á drykkjarstöð uppi á heiði og skemmti mér sérlega vel ásamt öðrum sjálfboðaliðum. Rúsínan í pylsuendanum er auðvitað fiskihlaðborðið og ball sem haldið er að göngu lokinni en það er ávallt vel sótt enda mjög skemmtilegt,“ segir hún.
Gott að ögra sér
Hjördís hvetur sem flesta til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi enda sé það svo gefandi.
„Í starfi mínu sem sjálfboðaliði hitti ég alltaf og kynnist fjöldanum öllum af skemmtilegu fólki. Um leið stíg ég aðeins út fyrir boxið og ögra sjálfum mér. Það er nánast alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast í kringum svona hópa og maður skemmtir sér yfirleitt vel og hefur gaman af.“
Greinin birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.
Blaðið allt og fleiri viðtöl er hægt að lesa í heild sinni hér.