Fara á efnissvæði
25. júní 2022

Hjólagarpurinn Þorsteinn heiðraður

Borgnesingurinn og hjólagarpurinn Þorsteinn Eyþórsson var heiðraður við setningu Landsmóts UMFÍ 50+ í Borgarnesi í gærkvöldi. Þorsteinn hjólaði Vestfjarðarhringinn svokallaða í sumar til styrktar Píetasamtökunum en hann missti tengdason sinn fyrir nokkru og vildi hann styrkja samtökin. Píetasamtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.

Þorsteinn hefur áður hjólað hringinn um landið og sagði Vestfjarðarhringinn hafa verið erfiðan viðfangs. Hringurinn er 755 kíllómetra langur og áætlaði hann að vera 12 daga á leiðinni. Þeir urðu færri.

Árið 2015 hjólaði Þorsteinn Snæfellshringinn og árið eftir hringinn í kringum landið. Þá safnaði hann til styrktar ADHD samtökunum. 

Þorsteinn kom hjólandi inn á setninguna í fullum hjólagalla í gær og vakti gríðarlega athygli.

Hér má sjá hann með þeim Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, formanni UMFÍ.