Fara á efnissvæði
08. apríl 2022

Hjólakraftur leitar eftir samstarfi um allt land

Hjólakraftur hefur unnið að því frá árinu 2012 að koma börnum og ungmennum á hreyfingu. Mikið af þeirri vinnu hefur farið fram í samstarfi við skóla og sveitarfélög og í nokkur skipti með UMFÍ og aðildarfélögum. 

Árið 2016 kom í fyrsta sinn með Hjólakrafti hópur drengja frá Egilsstöðum í gegnum samstarf við Ungmennafélagið Þrist á Héraði. Árið eftir bættust við ungmenni frá Þingeyri með samstarfi við Ungmennafélagið Höfrung. Krakkar úr Eyjafirði hafa líka tekið þátt í gegnum samstarf við Ungmennafélagið Samherja. Þetta hefur endurtekið sig síðan þá og nýtur verkefnið mikillar gleði og velvildar.

 

 

Verkefnið hefur líka undið upp á sig og vaxið. Undanfarna mánuði hafa nokkrir flottir strákar sem byrjuðu að æfa undir merkjum Hjólakrafts og Þrists stjórnað hjólaæfingum fyrir yngri þátttakendur. Það er stórkostleg þróun og styrkir þær væntingar að mögulegt er að fara með sama módel til fleiri bæjarfélaga um allt land.

Hjólakraftur hefur í raun ætíð starfað í ungmennafélagsanda. Þar skiptir mestu máli að mæta og taka þátt. Árangurinn er ekki aðalatriði. Það sem einum reynist auðvelt er áskorun fyrir næsta mann. Því er árangurinn ekki aðalatriðið heldur taka allir þátt á eigin forsendum.

 

Gerum þetta saman

Hjólakraftur biðlar nú til UMFÍ og aðildarfélaga að vinna saman að því að finna einstaklinga um allt land sem hafa unnið með ungmennafélögum. Hugmyndin er að setja á laggirnar hjólahópa þar sem áhugi er fyrir hendi.

Einstaklingarnir sem við leitum að þurfa ekki að vera „bestu“ eða reynslumestu þjálfarrnir. Þeir þurfa hins vegar að vera þolinmóðir, fullir af kærleika og þrautseigju.

 

Hlutverk Hjólakrafts

 Fulltrúar Hjólakrafts hitta þjálfara sem vilja taka verkefnið að sér í sínu bæjarfélagi, fara með þeim yfir hugmyndafræðina og taka að lágmarki eina til tvær æfingar í heimabyggð með viðkomandi.

  1. Við hjá Hjólakrafti stofnum hópa á Strava (hreyfimælinga-app) og fylgjumst með þátttöku hvers og eins. Við komum svo aftur til að fylgja starfinu eftir.
  2. Þeir sem mæta, skrá sig til þátttöku í starfi ungmennafélagsins og taka þátt í þessu með okkur, verður boðið að koma með okkur í stórt samhjól í kringum Ísland á þeim tíma sem Cyclothonið hefur vanalega verið haldið – vonandi bara seint í júní, kringum sumarsólstöður (erum að plana þetta).

 

Hlutverk UMFÍ og aðildarfélaga

  1. UMFÍ hjálpar okkur að finna þjálfara, drífandi fólk á hverjum stað til að koma að verkefninu og tengir sambandsaðila og aðildarfélög við Hjólakraft.
  2. Gangi allt upp mun UMFÍ í samstarfi við þau ungmennafélög sem taka þátt í verkefninu auglýsa æfingar á hverjum stað.
  3. Ungmennafélög sem áhuga hafa á að taka þátt í verkefninu þurfa að halda utan um fjölda þátttakenda og aðrar tölulegar upplýsingar, sem geta m.a. komið að gagni við fjármögnun.

 

UMFÍ óskar eftir því að sambandsaðilar og aðildarfélög okkar sem áhuga hafa á þessu verkefni, finni einstakling eða einstaklinga sem taka boltann heima fyrir og verða þessir tengiliðir sem verið er að leita að. Við óskum þess að nöfn þessarra einstaklinga með greinargóðum upplýsingum um viðkomandi verði sendar á umfi@umfi.is.