Fara á efnissvæði
19. janúar 2024

„Höldum úti eins mörgum æfingum og mögulegt er“

„Þótt ég þekki vel til félagsins þá hef verið að vinna í því að átta mig á mismunandi stöðu deilda og koma starfinu í gang. Þetta eru sérstakar aðstæður enda hef ég ekki fundið neina sem hafa staðið frammi fyrir svipuðum málum og við,“ segir Þorleifur Ólafsson, sem á dögunum var ráðinn í starf framkvæmdastjóra Ungmennafélags Grindavíkur (UMFG). Hann tekur við starfinu af Jóni Júlíusi Karlssyni.

Þorleifur eða Lalli eins og hann er gjarnan kallaður, er fæddur og uppalinn Grindvíkingur. Hann hefur þjálfað flesta flokka innan körfuknattleiksdeildar UMFG ásamt því að vera sjálfur leikmaður frá unga aldri. Hann hefur þjálfað 4. flokk kvennaliðs UMFG í knattspyrnu og er núverandi þjálfari kvennaliðs félagsins í körfu. Hann mun gera það út tímabilið uns samningur hans rennur út.

Þorleifur er með aðstöðu á fjórðu hæð Tollhússins í Reykjavík en þar eru bæjarskrifstofur Grindavíkur. Á þriðju hæðinni eru þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga auk þjónustu sem Rauði krossinn býður upp á.

Um 550 iðkendur eru hjá UMFG í ýmsum íþróttagreinum. Þorleifur segir unnið að því að halda úti eins mörgum Grindavíkuræfingum og mögulegt er. „Við höfum verið mjög upptekin af því að iðkendur, sama hvað þeir æfa, spili undir merkjum Grindavíkur. Við einblínum á að klára árið 2024 og sjáum svo til. Enda ekki annað hægt,“ segir hann.

 

Heimasíða UMFG

 

Grindvíkingar í Skinfaxa

Rætt er við Klöru Bjarnadóttur, formann UMFG, í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

Blaðið er aðgengilegt í íþróttahúsum og sundlaugum og sent til áskrifenda. Blaðið er líka aðgengilegt á miðlum UMFÍ.

Rafræn útgáfa Skinfaxa er mjög aðgengileg og gott að lesa blaðið bæði á umfi.is og issuu.

 

Lesa Skinfaxa á umfi.is

Lesa Skinfaxa á issuu.com

 

Ef þú vilt koma einhverju á framfæri sem á erindi við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna þá er um að gera og senda okkur línu á umfi@umfi.is

Þú getur líka smellt á blaðið hér að neðan og lesið það á umfi.is.