Hrafnhild hjá ÍR: Óvissan veldur hættu á að börn hætti í skipulögðu starfi
„Þegar óvissa er um íþróttastarfið er hætta á að foreldrar dragi úr skráningu barna sinna í skipulögðu starfi. Við verðum að gæta þess að samdráttur í skipulögðu íþróttastarfi verði ekki langvarandi og að brugðist verði við eftirköstum ef þau verða,“ segir Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir, framkvæmdastjóri ÍR í Reykjavík.
Hrafnhild segir erfitt að skipuleggja íþróttastarfið um þessar mundir. Þegar tilmæli og reglur eru ekki skýrar og misræmi á milli þá verði enn erfiðara að bregðast við.
„Það er æskilegt að geta farið eftir tilmælum og nauðsynlegt að samræma viðbrögð félaga svo starfsemin verði svipuð á milli félaga,“ segir hún en leggur áherslu á að hún treysti því að yfirvöld bregðist við faraldrinum með réttum hætti. Erfitt sé hins vegar að vinna í umhverfi þar sem óvissa sé í loftinu.
„Allar deildir innan ÍR hafa verð að glíma við samdrátt. Við þurfum að gæta að því að samdrátturinn í skipulögðu íþróttastarfi verði ekki langvarandi. Það er einmitt hætta á að foreldrar dragi úr skráningu barna í skipulögðu starfi þegar óvissa er til staðar. Við þurfum að huga að þessu. En eins þarf að huga vel að afreksfólki, þar sem óvissa er um komandi tíma og þróun faraldursins,“ segir hún.