Fara á efnissvæði
24. mars 2023

Hrafnhildur sæmd Gullmerki UMFÍ í Skagafirði

Hrafnhildur Pétursdóttir var veitt Gullmerki UMFÍ á 103. ársþingi Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS), sem fram fór í vikunni. Gullmerkið fékk Hrafnhildur fyrir óeigingjarnt starf sem sjálfboðaliði og sinnir hún því enn af krafti.

Nokkrir aðrir einstaklingar áttu að fá merki á þingi UMSS en komust ekki á þingið. Þeim verða afhend merkin við tækifæri á næstu vikum.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var gestur á fundinum fyrir hönd UMFÍ og hélt hann þarf ávarp. Garðar Svansson var gestur þingsins fyrir hönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og var hann jafnframt forseti þingsins. Garðar afhenti þeim Hirti Geirmundssyni og Magnúsi Helgasyni Silfurmerki ÍSÍ. Málfríður Sigurhansdóttir, sem situr í stjórn UMFÍ, tók að sér að vera varaforseti þingsins.

Gunnar Þór Gestsson var endurkjörinn formaður UMSS auk þeirra sem áður sátu. Kjósa þurfti hins vegar um nýtt fólk í varastjórn en hún situr aðeins eitt ár í senn. Ný í varastjórn UMSS eru þau Elvar Einarsson, Hrefna Reynisdóttir og Indriði Ragnar Grétarsson.

 

Bjóða skagfirskum ungmennum á mót

Á þinginu fór Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ og formaður kjölnefndar UMSS, yfir mótin fjögur sem haldin verða, Landsmót UMFÍ í Stykkishólmi um Jónsmessuna, Drulluhlaup Krónunnar í Mosfellsbæ sem halda á 12. ágúst og Forsetahlaup UMFÍ. Unglingalandsmót UMFÍ fer svo eins og venja er fram um verslunarmannahelgina. Það verður á Sauðárkróki að þessu sinni og verður heilmikið fjör á dagskránni, tugir íþróttagreina, tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna og tónleikar á kvöldin.

Ómar sagði jafnframt frá því að allir þátttakendur UMSS á aldrinum 11 – 18 ára geti skráð sig á Unglingalandsmót UMFÍ og tekið þátt í því án endurgjalds.

Unglingalandsmótið er haldið í samstarfi við UMSS og sveitarfélagið Skagafjörð.

Tækifærið á þinginu var einmitt nýtt til að skrifa undir samning um Unglingalandsmótið í Skagafirði. Undir samninginn rituðu Gunnar formaður, Jóhann Steinar, formaður UMFÍ, og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.

Allt um um Unglingalandsmót UMFÍ 2023

 

Taka upp samræmda viðbragðsáætlun

Af hefðbundinni dagskrá má geta þes að 16 tillögur voru lagðar fram og voru þær flestar samþykktar samhljóða. Þar á meðal var tillaga um að taka upp samræmda viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf.

„Þingið gekk mjög vel, mætingin var góð en hefur verið betri,“ segir Thelma Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) en 103. ársþing sambandsins fór fram í vikunni. Þátttakan var góð en 32 þingfulltrúar mættu á þingið af 62.

 

Fleiri myndir frá þinginu